Formaður Framsýnar vandar Birni ekki kveðjurnar

0
138

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar-stéttarfélags í Þingeyjarsýslu er ekki ánægður með félaga sína í Starfsgreinasambandin og þá sérstaklega Björn Snæbjörnsson formann Einingar-Iðju á Akureyri.

Aðalsteinn Árni Baldursson.
Aðalsteinn Árni Baldursson.

Eins og kunnugt er ákváðu nokkur félög innan SGS að standa sameiginlega að kröfugerð en Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness fá ekki að vera með í því samfloti.

Eftirfarandi færslu skrifaði Aðalsteinn Árni Baldursson á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

 

Sérstakur dagur, fundur með svokölluðum félögum í verkalýðshreyfingunni. Formaður SGS, Björn Snæbjörnsson, telur ekki hægt að starfa með formanni Framsýnar og Vl. Akraness og safnar liði. Þeir séu með og miklar kröfur fyrir hönd verkafólks, heilar kr. 20.000 á mánuði. Það þýðir að laun verkafólks hækki úr kr. 192.000 í kr. 212.000 á mánuði. Þetta er ófært segir vinur litla mannsins frá Akureyri, maðurinn sem fékk 374% launahækkun á síðasta aðalfundi Stapa, lífeyrissjóðs. Hann var með um kr. 42.000 (stjórnarlaun. innskot 641.is) á mánuði og hefur nú 160.000 á mánuði. Eru hans félagsmenn virkilega ánægðir með þetta, maðurinn sem barðist fyrir því að félagsmenn Einingar samþykktu 2,8% launahækkun. Ef svo er, skil ég ekki verkalýðsbaráttu á Íslandi, því miður”.

 

Því er svo við þetta að bæta að stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar – stéttarfélags eru boðuð til áríðandi fundar, á morgun, sunnudaginn 9. febrúar 2014 kl. 17:00. Fundurinn verður haldinn í Fensölum, fundarsal félagsins. Fundarefni er staðan í kjaramálum.

Samkvæmt heimildum 641.is er mikilla tíðinda að vænta á þessum fundi.