Foreldrar svindluðu í foreldrakönnun

0
67

Stjórnir foreldrafélaga Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hafralækjarskóla og Barnaborgar í Aðaldal sendu tölvupóst á alla foreldra barna í þessum skólum þar sem þeir voru beðnir um að svara rafrænni könnun um skólamál í Þingeyjarskóla þann 12. febrúar sl.  Í þessari könnun var aðeins ein spurning en gefnir voru fimm svarmöguleikar við henni. Var þess óskað að foreldrar væru búnir að svara könnuninni fyrir 15. febrúar svo tími gæfist til að vinna úr niðurstöðunum.

Foreldrakönnun
Spurningin sem foreldrar fengu í könnuninni. Skjáskot af könnuninni sem er ennþá opin.

Til stóð að birta niðurstöðurnar hér á  641.is eins fljótt og mögulegt væri og biðla til þeirra sem hyggjast bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor, að hafa niðurstöðurnar í huga þegar þeir setja saman stefnuskrár sínar.

Samkvæmt heimildum 641.is verða niðurstöðurnar ekki birtar þar sem einhverjir foreldrar svindluðu í könnuninni og því ekkert að marka niðurstöðurnar. Fleiri atkvæði bárust heldur en foreldrafjöldinn segir til um á skólasvæði Þingeyjarskóla og þegar forsvarsfólk könnunarinnar athugaði það nánar kom í ljós að nokkuð var um það að mörg atkvæði bærust frá sömu ip-tölunni. Dæmi voru um allt að 10 atkvæði frá sömu ip-tölunni. Ljóst var því að einhverjir foreldrar höfðu svindlað í könnuninni. Það skal tekið fram að könnunin var einungis send á þá foreldra sem eru með skráð netföng í mentor og á netfangalista leikskólanna.

Sérstaka athygli vekur að könnunin er ennþá opin og því enn hægt að greiða atkvæði í könnuninni.

Samkvæmt heimildum 641.is hefur forsvarsfólk foreldrafélaganna ekki ákveðið hver næstu skref verða, en í athugun er að framkvæma aðra foreldrakönnun, þar sem þessi er ekki marktæk. Óvíst er með hvaða hætti hún verður framkvæmd, verði af henni á annað borð.