Ford Model-T árg. 1914 til sýnis í Samgönguminjasafninu

Talinn elsti bíll landsins

0
374

Samgönguminjasafninu í Ystafelli áskotnaðist sl. fimmtudag glæsilegt eintak af Ford Model-T árg. 1914 sem talinn er elsti bíll á Íslandi. Bíllinn er með 4 cyl 20 hestafla mótor og lítur út eins og nýr, en hann var fluttur inn frá Bandaríkjunum notaður árið 1988. Bíllinn mun vera gangfær og verður hann varveittur á Samgönguminjasafninu í Ystafelli um óákveðinn tíma.

Fordinn kemur á Samgönguminjasafnið. Mynd: Sverrir Ingólfsson

Að sögn Sverris Ingólfssonar hjá Samgönguminjasafninu er hann afar ánægður með að bíllinn sé kominn til varðveislu hjá safninu.

Annað djásn, nokkrum árum yngri en Fordinn, Dixie Flyer árg. 1919 með lögheimili í Ystafelli, heldur upp á 100 ára afmæli um þessar mundir.  Bíllinn var keyptur nýr til Akureyrar árið 1919 og af því tilefni stendur til að hann verði til sýnis á morgun á Akureyri í tilefni bíladaga sem þar standa yfir. Mögulega verður hann keyrður eitthvað um götur Akureyrar á morgun í tilefni af 100 ára afmælinu.

Dixie Flyer var gangsettur nýlega. Mynd: Sverrir Ingólfsson

Í Samgönguminjasafninu í Ystafelli eru mörg önnur fágæt eintök af bílum á öllum aldri og alltaf gaman að kíkja þangað og skoða.

Samgönguminjasafnið verður opið frá 10:00 til 20:00 alla daga í sumar.