Föllum á hné

0
148

Þegar barn fæðist er ótalmargt annað í kring sem missir vægi og gleymist. Gárungar hafa m.a. talað um svokallaða brjóstaþoku hjá nýbökuðum mæðrum sem gleyma einu og öðru er alla jafna hefur ekki gleymst.

Það er bara þannig að þegar nýr einstaklingur heilsar þessum heimi hverfist allt um hann. Þú hættir meira að segja að hugsa um síðustu viðureign Chelsea og Liverpool, yfirdráttinn, og jafnvel þá ógn sem býr í næstu aðgerðum ISIS samtakana.

 

Allt fellur einhvern veginn í dúnalogn, ekkert er eins friðsamt og þegar foreldri heldur á hvítvoðungnum, dáist að honum, móðir horfir í augu barnsins sem hún bar undir belti, blandaðar tilfinningar ríkja, feginleiki bæði yfir því að þjáningu burðar er lokið og að barnið sé nú loks komið.

Hinn óskilyrti kærleikur ríkir yfir öllu, barnið þarf ekkert að hafa fyrir því að vera elskað, öll drögumst við að því, kjáum framan í það, við hugsum ekki einu sinni um það hvað við verðum sjálf kjánaleg í framan þegar við erum að gretta okkur þangað til barnið fer svo að skæla og hefur ekkert fyrir því.

Við föllum á kné frammi fyrir hreinleika og sakleysi, því við vitum það að eftir því sem við eldumst fer svo margt að safna ryki og spillast, sakleysið súrnar svolítið, við verðum meyr því barnið minnir okkur áþreifanlega á þá staðreynd.Við verðum öll að betri manneskjum í kringum nýfætt barn og það er eðlilegt.

Guð birtist okkur sem barn í bænum Betlehem. Guð minnir þar á hinn óskilyrta kærleika, við erum líka minnt á hina svokölluðu náð sem segir okkur að Guð elskar heiminn of mikið til þess að hið slæma og neikvæða fái skilgreint okkur  mannfólkið og til þess að illskan eigi síðasta orðið.

Guð gerir alla hluti nýja og einmitt þess vegna birtist hann okkur í barninu í Betlehem, nýjum einstaklingi hreinum og saklausum, nokkuð sem kemur okkur sífellt á óvart, og ekki hvað síst misviturri valdsmennskunni eins og vitnast í viðbrögðum Heródesar konungs þar sem fyrir honum hlyti Messías í almætti sínu að vera eitthvað stórt og ógnvænlegt.

Þó er það samt þannig að almætti kemur hvað skýrast í ljós í vanmætti. Það má berlega sjá á þeim gestum sem heimsóttu gripahúsið nóttina sem Jesúbarnið fæddist. Fjárhirðar féllu á kné, vitringar féllu á kné í lotningu sinni, það var enginn sem skipaði þeim að gera það, þeir gerðu það ekki af neinni skyldurækni, nei það var af hreinni löngun, einlægri löngun, virðingu, trú.

Ég hef jafnframt velt þessari komu Guðs í veröldina fyrir mér sem tærum skilaboðum þess efnis að ein mesta gæfan í lífinu er að lifa ekki einvörðungu í sjálfum sér heldur vera reiðubúinn að láta gott af sér leiða, vera bænheyrsla í lífi náungans.

Sú tilfinning er sterklega dregin fram þegar um nýfætt barn er að ræða, við viljum allt fyrir það gera, við myndum vaða eld og brennistein fyrir það, við þjónum því af nærgætni og alúð.

Það er síðan mikilvægur boðskapur inn í sjálhverfuveröld nútímans, sjálfhverfa er manneskjunni eðlislæg, hún er hluti af þroskaferli, á ákveðnu bernskuskeiði  er henni fyrirmunað að sjá út fyrir sjálfa sig, en síðan þroskast það víst af henni, mismikið þó.

Sjálfhverfa má ekki taka yfir þrátt fyrir að það sé vandlifað á þessum tímum þar sem við erum öllum sýnileg alltaf. Fólk sýnir sig og segir frá sér á samfélagsmiðlum og í flóru fjölmiðla. Þar eru öll spil oftar en ekki lögð á borðið í viðtölum og frásögnum, ekki bara nokkur spil, menn gera upp líf sitt á netinu og í jólabókunum, sumt mætti meira að segja aðeins hljóma við eldhúsborðið heima í eyrum allra nánustu en virðist samt ekki alltaf nægja.

Játningakúltúr samtímans sem kann alveg að vera heiðarlegur og sumir segja að gagnist fjölmörgum, er einnig rekinn áfram af sölumennsku, athyglisþörf og dassi af sjálfhverfu. Hann getur alveg sett fólk í undarlega stöðu bæði gagnvart sjálfu sér og umheiminum.

Vinir verða vitni að vinum opna sig á miðlum, um lífsreynslu sem þeir hafa kannski ekki þekkt áður, hvernig verður það næst þegar þeir svo hittast, hvernig skal bregðast við, mun örla á kinnroða?

Athugasemdir eða gagnrýni verður illþolanlegri í fyrrnefndum kúltúr, þó það sé málefnalegt, því „lækin” eru miklu notalegri, þau strjúka á vanga.

Umræðan við þetta landslag breytist mjög, við sjáum það öll, hún er á margan hátt tyrfin hvort sem hún er pólitísk, trúarleg eða eitthvað allt annað. Hugsunin er oft þessi: Mín skoðun er rétt skoðun og ef ég fæ ekki læk á hana fer ég í fýlu, ef það birtist óþægileg athugasemd sem ógnar henni er hætt við að manneskjan sem að baki stendur verði sniðgengin í næsta kokteilboði.

Æ, ég ætlaði helst ekki að tala um samfélagsmein eða vera með mikla samfélagskrítík í annars friðsamri jólaræðu en þetta er hluti af því að varpa ljósi á það að Guð í Jesúbarni fær okkur til að horfast í augu við okkur sjálf, kannast við okkur, hvaðan við komum, hver við erum, hvert við erum að fara, og það er ótrúlega hollt og gefandi, það segir líka að Betlehemssagan er sígild enda kemur hún fram í svo ótalmörgum sögum öðrum aftur og aftur, minni og þinni.

Mitt í öllu argaþrasi fyrir jólin þar sem þingheimur var orðinn pirraður, og það helst á sjálfum sér, og Þjóðkirkjunni var spáð endalokum stóð Kevi litli nótt eina í dyrunum heima hjá sér með bangsann sinn. Í vanmætti var honum vísað úr landi og hvorki fleiri né færri en 20 lögregluþjónar fylgdu honum og fjölskyldu hans úr hlaði.

Þarna stóð hann ekki bara þreyttur í dyrunum með tuskudýrið sitt heldur líka veikur, langveikur. Þetta var súrrealísk mynd eins og sú er við rifjum alltaf upp hver jól frá Betlehem þar sem eigi var rúm í gistihúsi.  Það er góð upprifjun sem stenst alveg skoðun þrátt fyrir að Scrooge reyni látlaust að afsanna hana.

Og loksins urðu allir sammála, það voru allir sammála um að þessi mynd var skökk, þetta var fjarri því að vera rétt. Meira að segja þau sem vilja að skoðanir þeirra séu ríkjandi skoðanir og að helst allir ættu að hafa þær skoðanir hættu að hugsa það um stund og urðu einfaldlega sammála, sjálfhverfan missti mátt, það féllu allir á kné frammi fyrir þessari mynd, hún snerti við hverju einasta hjarta, barn við nöturlegar aðstæður sem síðan varð að fara úr landi, kannast einhver við söguna?

Samfélagsmiðlar loguðu, mótmæli fóru fram á Austurvelli, réttlætiskenndinni var misboðið, engar reglur eða rök gátu mögulega náð utan um myndina af Kevi litla, aðeins tilfinningar er réðu för og við það varð allt svo satt. Og svona skömmu fyrir jól kom Betlehemsmyndin upp í hugann og þar af leiðandi stóra spurningin hvað hefði Jesús gert í þessum aðstæðum sem hann og fjölskylda hans þekkti svo vel.

Eins og líf hans þróaðist skv. guðspjöllunum þar sem hann svalaði réttlætiskennd fólks með aðgerðum sínum og valdi kærleikans, ef svo má að orði komast, þá hefði hann leitt Kevi aftur inn í herbergi, því börn sofa á næturnar, breitt ofan á hann og lagt tuskudýrið undir vanga hans. Síðan hefði hann leitað lausna með fullorðna fólkinu og hjálpað því að kannast við sjálft sig og horfast í augu við aðstæður, hann hefði örvað næmi okkar fyrir umhverfinu.

Spurt er hvaða erindi þjóðkirkjan eigi í dag.  Einmitt þetta, að minna á það sem við getum verið sammála um og sem sameinar okkur enda er eðli þjóðkirkjunnar að þjóna öllum óháð lífsskoðunum eða aðstæðum, að minna á söguna um barnið í Betlehem sem birtist í svo fjölmörgum myndum í samtíma okkar og við þurfum að koma auga á og læra af  og þekkja viðbrögð okkar við.

Og hlutverk hennar er að minna okkur á að við erum ekki ein, við megum ekki einangra okkur inn í eigið sjálf heldur alltaf að hugsa út fyrir hringinn, líta í aðstæður náunga okkar og sjá hann fyrir okkur eins og gestirnir sáu barnið fyrir sér í gripahúsinu í Betlehem.  Að lokum fékk Kevi litli og fjölskylda hans íslenskan ríkisborgararétt, þau koma aftur, samstaðan virkaði eins og svo oft áður og þá geta jólin komið fyrir mér.rkaði eins og svo oft a

Jesús sagði: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.”

Gleðileg jól!

Bolli Pétur Bollason