Fólksflutningabíll brann til kaldra kola í Ljósvatnsskarði í hádeginu í dag skammt frá Stórutjarnaskóla. Slökkvilið Þingeyjarsveitar, sem er með aðstöðu við Stórutjarnaskóla, brást hratt við og var komið á staðinn uþb. 10 mín síðar til að slökkva eldinn. Fólksflutningabíllinn var mannlaus fyrir utan bílstjóra, sem gat ekið bílnum af þjóðvegi eitt og áleiðis inn í malargryfju við veginn þegar hann varð eldsins var.

Að sögn Friðriks Steingrímssonar hjá slökkviliði Þingeyjarsveitar gekk ágætlega að slökkva eldinn, en fólksflutningabifreiðin er illa farin eftir brunann. Aðilar frá tryggingafélagi fólksflutningabílsins komu á staðinn síðdegis í dag til að meta tjónið.