Foktjón á Bergi og Sandi – Allt útatað í drullu

0
346

Talsvert foktjón varð á bæjunum Bergi og Sandi 1-2 í Aðaldal í fyrrinótt í suðvestan ofsaveðrinu sem þá gekk yfir landið. Bárujárn fauk eitthvað út í buskann af helmingnum af fjárhúshlöðunni á Bergi sem er nýtt sem hesthús í dag, en engir hestar voru þar inni. Gunnar Óli Hákonarson á Sandi segist reikna með því að fá bárujárn til þess að setja á hlöðuna á morgun. En rokinu fylgdi líka ótrúlega mikil leirdrulla sem klíndist á allt sem fyrir varð og eru suður hliðar húsa á Bergi og Sandsbæjum, útötuð í þykkri leirdrullu, sem fraus svo föst á í gær. Drullan er upp undir 1.sm þykk þar sem hún er þykkst. Drullan settist einnig á girðingar líkt og ísing gerir og á þær hliðar á bílum og dráttarvélum sem snéru upp í vindinn.

Hálft hlöðuþakið fauk út í buskann
Bárujárnið fauk út í buskann
Íbúðarhúsið á Bergi er venjulega hvítt að lit.
Íbúðarhúsið á Sandi er venjulega hvítt að lit.

Að sögn Gunnars Óla kemur drullan úr Kisanum, sem er lítið og grunnt stöðuvatn um 100 metra frá bæjunum. Rokið var þvílíkt og öldugangurinn svo mikll í Kisanum að vatnið í honum gruggaðist upp og fauk drullublandað vatnið yfir bæina með fyrrgreindum afleiðingum.

“Ég man ekki eftir svona svakalegu roki né svona drulluburði áður. Heimilsbílarnir eru ótrúlega drullugir og svo fraus þetta á þeim í þokkabót. Ég veit ekki hvort bílarnir eru eitthvað skemmdir. það kemur í ljós síðar í dag”, sagði Gunnar Óli í spjalli við 641.is í dag.

Bíll Gunnars Óla er óhreinn og verri en bílar í Bárðardal verða stundum
Bíll Gunnars Óla er óhreinn og verri en bílar í Bárðardal verða stundum.
Drullan frosin föst á felgunni
Drullan frosin föst á felgunni

Að sögn Gunnars gat hann ekki þrifið drulluna af í gær vegna kulda, en í dag er hitastigið fyrir ofan frostmark og því verður ráðist í umfangsmikil þrif á Bergs og Sandsbæjum í dag.

Hugmyndir eru uppi um það að slökkvilið Þingeyjarsveitar komi þar við í dag með sinn búnað og smúli drulluna af húsunum þar sem um mjög umfangsmikil þrif er að ræða. 641.is hef þó ekki fengið það staðfest.

Uppfært kl 12:10. Slökkvilið Þingeyjarsveitar er mætt á staðinn og eru þrif hafin á Bergi og Sandsbæjum