Fnjóskadalur, Kinn, Aðaldalur, Laxárdalur og Reykjadalur tengdir 2016 -17 – Bárðardalur tengdur 2018

0
413

Í kvöld var haldinn kynningarfundur um ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar að Ýdölum. Eins og fram hefur komið verður það fyrirtækið Tengir á Akureyri sem mun leggja ljósleiðara í Þingeyjarsveit, en tilboði frá þeim í ljósleiðaralagninu var tekið nú nýlega. Tengir stefnir á að tengja 150 heimili við ljósleiðara á þessu ári og klára að tengja alla Þingeyjarsveit fyrir árslok 2018. Tengir mun eiga ljósleiðaranetið.

Verkið verður unnið í þremur áföngum. Fyrsti áfangi (rautt svæði á mynd) verður unnin á þessu ári og er ætlunin að tengja bæi í mið Fnjóskadal, Ljósavatnsskarði að hluta, bæi í Köldukinn utan Út-Kinnar, bæi í Aðaldal sunnan Tjarnar og bæi í Reykjadal suður að Lyngbrekku. (Sjá nánar á mynd hér fyrir neðan).

Verkáætlun Tengis. (smella á til að stækka)
Verkáætlun Tengis. (smella á til að stækka)

 

Ráðist verður í annan áfanga árið 2017. Þá verða verða tengingar í Fnjóskadal kláraðar. Einnig tengingar í Út-Kinn, bæir í Aðaldal og Reykjadal sem ekki eru í fyrsta áfanga og svo bæi í Laxárdal (gult svæði á korti)

Ráðist verður í þriðja og síðasta áfanga árið 2018. Þá verða bæir í Bárðardal tengdir og þeir bæir sem eftir standa í Ljósavatnsskarði og bæi í nágrenni Goðafoss. ( Ljósblátt svæði. Sjá nánar á mynd). Tekið skal fram að myndin er frekar óskýr, enda tekin beint af tjaldinu.

 

Fram kom í máli Steinmars Rögnvaldssonar fulltrúa Tengis hf á fundinum að notendur (heimili) greiði 200.000 krónur (fyrir utan vsk) fyrir tenginguna. Veittur verður 35.000 króna afsláttur ef notendur leggja sjálfir ídráttarrör út fyrir lóðamörk. Lögaðilar og frístunda og sumarhúsaeigendur greiða 250.000 krónur (utan vsk) fyrir tenginguna.

Haraldur Benediktsson alþingismaður og formaður stjórnar Fjarskiptasjóðs ávarpaði fundinn og hvatti alla íbúa Þingeyjarsveitar til þess að taka inn ljósleiðara hjá sér og það gerði Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar einnig.

Ánægja ríkti meðal fundargesta með kynninguna og áform Tengis, en þessi áform verða kynnt líka á fundum á Breiðumýri, Kiðagili og í Stórutjarnaskóla á næstunni. Ekki liggur fyrir tímasetning á þeim kynningarfundum.