Flugfélagið Ernir eykur enn frekar við áætlunarflugið til Húsavíkur

0
118

Flugfélagið Ernir hefur nú bætt enn frekar við áætlunarflugið milli Húsavíkur og Reykjavíkur og er með fastar 12 ferðir í viku. Einnig verða möguleikar á aukaferðum og er flugfélagið að gera ráð fyrir 14-16 ferðum í viku í vetur. Með þeirri uppbyggingu og framkvæmdum sem í gangi eru á Húsavík og þar í kring þá hefur eftirspurn aukist gríðarlega og er þessi bætta áætlun gerð til að anna þeirri eftirspurn. Frá þessu segir á Framsýn.is

Copy (2) of Jetstream ErnirAir-004 (2)

 

Áætlar félagið að auka farþegastreymi mikið bæði með tengslum við framkvæmdir og eins hafa íbúar svæðisins tekið mjög vel í þau stéttafélagsfargjöld sem í boði eru og hafa nú náðst áframhaldandi samningar þar um. Gengið var frá samkomulagi þess efnis í vikunni milli flugfélagsins og Framsýnar.

 

Einnig er vert að nefna að aukning erlendra ferðamanna með flugi um Húsavíkurflugvöll hefur margfaldast á síðustu tveimur árum og er unnið að enn frekari aukningu á komu erlendra ferðamanna. Mikil kynning á sér stað innan ferðaskrifstofa bæði innlendra og erlendra og er það að skila sér í auknu streymi í flugið.

Með samningum við Framsýn og fleiri stéttafélög er Flugfélagið Ernir að gera almenningi enn frekar kleift að nýta flugsamgöngur og vill flugfélagið koma þakklæti á framfæri fyrir þær viðtökur og umtal sem félagið hefur fengið upp á síðkastið vegna þessara samninga. (framsyn.is)