Flestir með viðunandi heyforða

0
86

Nú liggja fyrir í forðagæsluskýrslum upplýsingar um heyöflun liðins sumars. Þegar á heildina er litið virðist ástandið sem betur fer nokkru skárra hér á svæðinu en almennt hefur verið rætt um. Staðan er þó mjög misjöfn milli sveita og einstakra bæja þegar raunverulegar fóðurþarfir eru skoðaðar, þ.e. fóðurþarfir að teknu tilliti til gjafatíma þessa landshluta. Frá þessu er sagt á heimasíðu Búgarðs.

Kjartan Smári Stefánsson  bóndi í Múla í Aðaldal rúllaði mikið sl. sumar
Kjartan Smári Stefánsson bóndi í Múla í Aðaldal rúllaði mikið sl. sumar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í Suður-Þingeyjarsýslu er staðan sú að svæðið sem slíkt getur talist eiga nægjanlegt hey en á allnokkrum bæjum er þörf á aðfengnu heyi og hafa flestir tryggt sér það. Mjög fáir eiga verulegt heymagn umfram þarfir og fæstir viljugir til að selja hey.

Í Norður-Þineyjarsýslu er staðan í heildina litið sú að nægt hey er talið vera í sýslunni en á nokkrum bæjum vantar hey. Flestir eru meðan viðunandi heyforða en fáir eiga mikið umframmagn. Með miðlun á heyi milli bæja ætti ekki að vera þörf á heykaupum inn á svæðið.

Á Eyjafjarðarsvæðinu er staðan einna lökust í Dalvíkurbyggð en þar var uppskera á mörgum bæjum mun minni en undanfarin ár og óvíða nokkurt verulegt magn af heyi umfram fóðurþarfir búfjár. Með nýtingu fyrninga og heykaupum er staðan þó víða orðin þokkaleg. Verulega minni uppskera var á nokkrum bæjum í Hörgársveit og einnig einstaka bæjum í Eyjafjarðarsveit og Grýtubakkahreppi. Í þessum sveitum eru hins vegar allmörg bú með verulegt heymagn umfram fóðurþarfir búfjár og því heildarstaðan allgóð.