Fjöregg heitir á Alþingi og ríkistjórn að axla ábyrgð

0
98

Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, heitir á Alþingi og ríkisstjórn að axla ábyrgð og sýna í verki að lögin um vernd Mývatns og Laxár séu meira en orðin tóm.

Mývatn
Mývatn

Aðalfundur Fjöreggs sendi frá sér eftirfarandi ályktun um málið:

“Lífríki Mývatns og Laxár í Suður­Þingeyjarsýslu hefur verið undir miklu álagi undanfarna áratugi og er svæðið á rauðum lista Umhverfisstofnunar fjórða árið í röð. Kúluskíturinn, sem aðeins finnst á einum öðrum stað í heiminum, er horfinn og botni vatnsins má líkja við uppblásinn eyðisand. Bleikjan, aðalfiskistofn vatnsins, hefur verið nánast friðuð í nokkur ár til að koma í veg fyrir útrýmingu. Hornsílastofninn er í sögulegri lægð. Við rannsóknir síðasta sumar veiddust 319 síli en sambærilegar rannsóknir síðustu tuttugu og fimm ár hafa skilað 3000­14000 sílum. Hrunið í hornsílastofninum bitnar illa á urriðanum og ljóst að draga verður úr veiðum á honum í sumar samkvæmt kröfum Fiskistofu. Bakteríugróður, sem Mývetningar kalla leirlos, fer vaxandi og hefur síðustu tvö sumur verið með fádæmum og langt yfir þeim heilsuverndarmörkum sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin miðar við í vötnum þar sem útivist er stunduð.

Fjöregg, samtök um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, hvetur sveitarstjórn Skútustaðahrepps til að herða enn róðurinn í þeim umbótum í umhverfismálum sem unnið er að. Sumar eru svo dýrar að ljóst er að 400 manna samfélag mun aldrei standa undir þeim kostnaði. Því heitir Fjöregg á Alþingi og ríkisstjórn að axla sinn hluta ábyrgðarinnar og sýna að lögin um vernd Mývatns og Laxár séu meira en orðin tóm. Heimamenn þurfa nauðsynlega aðstoð, bæði í formi fjár og fagþekkingar, ef von á að vera til að hægt sé að snúa óheillaþróuninni við. 

Fjöregg hefur starfað í rúm tvö ár og eru markmið félagsins verndun náttúru og umhverfis Mývatnssveitar, sjálfbær umgengni sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja. Markmiðum sínum hyggst félagið m.a. ná með fræðslu, hvatningu og umræðu um náttúruverndarmál. Fyrsta málþing Fjöreggs var um fráveitumál en einnig hafa verið haldin málþing um jarðvarmavirkjanir og sambýli ferðamenna og íbúa í Mývatnssveit”.