Fjöregg – Fundur um sambýli ferðamanna og heimamanna

0
107

Fundur um sambýli ferðamanna og heimamanna var haldinn á Sel-hótel í Mývatnssveit 26. september síðastliðinn. Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit stóð fyrir fundinum. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri hélt erindið Samlyndi íbúa og atvinnugreinar – skipulag ferðaþjónustunnar í fjölsóttri sveit. Aagot Vigdís Óskarsdóttir lögfræðingur fjallaði umheimildir ferðamanna til frjálsrar farar og dvalar á eignarlöndum. Yngvi Ragnar Kristjánsson oddviti Skútustaðahrepps, ræddi um stöðu þeirra mála sem tengdust efni fundarins hjá sveitarstjórn.

Ólöf Ýrr Atladóttir
Ólöf Ýrr Atladóttir

Umræður fundarins voru lausnamiðaðar og skipulagðar í þjóðfundarstíl og þar var farið yfir helstu núningsfleti heimamanna og ferðamanna. Á hverjum degi sumarsins 2015 er áætlað að um 5000 manns hafi farið um sveitina en íbúar hreppsins eru um 380.

Ólöf Ýrr Atladóttir lagði áherslu á mikilvægi skipulagsvalds sveitarfélaga í umbótum í ferðamálum. Aagot Vigdís Óskarsdóttir fjallaði m.a. um þau ólíku lög sem gilda innan Skútustaðahrepps, um friðuð svæði, verndarsvæði Mývatns og Laxár og hin almennu náttúruverndarlög. Fundarmenn fóru yfir hugsanlegar lausnir og áframhaldandi vinna við þær var skipulögð. Rætt var m.a. um salerni og sorp, umferð ferðamanna á einkalóðum, álag á verslun og um gistingu utan merktra tjaldstæða. Aukin umferð í sveitarfélaginu var einnig rædd, sérstaklega um lausnir fyrir gangandi vegfarendur og hjól .

Fjöregg var stofnað 27. febrúar 2014. Félagið hefur m.a. staðið fyrir málþingum um frárennslismál og ferðaþjónustu. Félagafundir eru haldnir reglulega. Formaður er Ólafur Þröstur Stefánsson.

Heimasíða félagsins er fjoregg.is. 7. nóvember næstkomandi mun félagið standa fyrir málþingi um jarðvarmavirkjanir.