Fjölsóttur íbúafundur um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla

0
125

Opinn íbúafundur vegna framtíðarskipulags Þingeyjarskóla var haldinn að Ýdölum í gærkvöld og voru skýrslur sem Haraldur Líndal Haraldsson, Bjarni Þór Einarsson og Ingvar Sigurgeirsson unnu um mögulega skólaskipan Þingeyjarskóla, til umræðu á fundinum. Skýrsluhöfundar gerðu grein fyrir skýrslum sínum, vinnu og niðurstöðum og í framhaldinu var opnað á fyrirspurnir fundargesta. Fundurinn var fjölmennur en um 130 manns mættu til hans.

Arnór Benónýsson, Ingvar Sigurgeirsson og Bjarni Þór Einarsson
Arnór Benónýsson oddviti, Ingvar Sigurgeirsson og Bjarni Þór Einarsson

Haraldur L Haraldsson hagfræðingur átti að vísu ekki kost á því að vera á staðnum en fylgdist þó með fundinum og svaraði fyrirspurnum, sem var beint til hans, í gegnum skype.

Í skýrslunum, sem hafa verið aðgegnilegar til lesturs undanfarana daga á vef þingeyjarsveitar og á 641.is, eru taldir fram kostir og gallar við báðar núverandi starfsstöðvar Þingeyjarskóla og vitnað í viðtöl við kennara, starfsfólk og foreldra á báðum stöðum. Í þeim viðtölum kom fram að næstum allir voru sammála um að núverandi fyrirkomulag gengi ekki upp og var vilji til þess að vera með allt skólahald þingeyjarskóla á einni starfsstöð í framtíðinni. Haraldur L Haraldsson hagfræðingur bar saman rekstrarkostnað Þingeyjarskóla við aðra skóla með svipaðan nemendafjölda og er kostnaðurinn við Þingeyjarskóla mun hærri en gengur og gerist miðaða við marga aðra skóla með áþekkan nemendafjölda. Hann taldi hægt að spara stórar fjárhæðir með því að vera með starfsemi Þingeyjarskóla á einum stað.

Bjarni Þór Einarsson byggingatæknifræðingur
Bjarni Þór Einarsson byggingatæknifræðingur

 

Ingvar Sigurgerisson kennslufræðingur sagði að sveitarfélagið hefði í raun val um tvo góða kosti. Annar kosturinn Hafralækur, er líklega fjárhagslega betri til skemmri tíma en til lengri tíma með hugsanlegri yfirtöku sveitarfélaganna á rekstri framhaldsskólanna, væri staðsetningin vænleg á Litlulaugum vegna nálægðarinnar við Framhaldsskólann á Laugum.

Bjarni Þór Einarsson byggingatæknifræðingur gerði mat á rýmisþörf og ástandi á núverandi skólahúsnæði á báðum starfsstöðvum og gerði grein fyrir því á fundinum. Hans mat er að húsnæði Hafralækjarskóla sé yfirdrifið og rúmi vel alla nemendur Þingeyjarskóla. Húsnæðið þarfnast þó mikilla endurbóta og metur hann viðhaldsþörfina á húsnæði Hafralækjaskóla upp á 477 milljónir króna, ef koma á húsnæðinu í gott stand. Það væri þó hægt að framkvæma það vildhald á lengri tíma. Ástand húsnæðis Litlulaugaskóla er gott en það rúmar ekki alla nemendur Þingeyjarskóla. Til þess að svo megi verða þarf að byggja við skólann og metur hann kostnaðinn við það vera um 250-300 milljónir króna.

Margar fyrirspurnir voru lagðar fyrir skýrsluhöfunda sem þeir svöruðu eftir bestu getu, en vildu þó ekki svara þeirri spurningu sem mest brann á íbúunum. Það var spurningin um hvorn staðinn sveitarsjórn ætti að velja sem framtíðarstað fyrir Þingeyjarskóla, Hafralæk eða Litlulauga, ef þeir fengju einhverju um það ráðið. Þeir sögðu að það væri sveitarstjórnar að ákveða það.

Í nóvember mun Félagsvísindastofun framkvæma skoðannakönnun meðal íbúa Þingeyjarsveitar um hvað gera skuli í málefnum Þingeyjarskóla og mun sveitarstjórn taka ákvörðun í framhaldi af þeim niðurstöðum sem út úr könnuninni koma og hafa til hliðsjónar þær skýrslur sem ræddar voru á fundinum í gærkvöld, við ákvörðun sína.

Ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um framtíðarstaðsetningu Þingeyjarskóla mun liggja fyrir í desember nk.

 

Hér fyrir neðan má lesa allar skýrslurnar og viðaukanna.

Skýrsla um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla – HLH ehf

Skýrsla um skólaskipan Þingeyjarskóla – Skólastofan slf.

Skýrsla um viðhalds- og rýmisþörf Þingeyjarskóla – Ráðbarður sf.