Fjölmenni á fullveldishátíð og 90 ára afmæli skólahalds á Laugum

0
390

Um 300 manns komu saman í íþróttahúsinu á Laugum í dag í tilefni af fullveldisdeginum og 90 ára afmæli skólahalds á Laugum. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá m.a. söngatriði leikskólabarna úr Barnaborg og Krílabæ, nemendur úr Þingeyjarskóla fluttu brot úr leikritinu Lína Langsokkur og nemendur framhaldsskólans fluttu söngatriði.

Hluti gesta
Hluti gesta

 

Aníta Karin Guttesen formaður HSÞ færði Laugaskóla eintak af 100 ára afmælisbók HSÞ sem kom út í fyrra og peningagjöf til tækjakaupa í íþróttahúsið í tilefni dagsins, en það var m.a. fyrir tilstilli HSÞ á sínum tíma að Alþýðuskólinn á Laugum hóf starfsemi sína fyrsta vetrardag árið 1925. Saga Laugaskóla og HSÞ er því mjög samofin. Jón Óskar Pétursson sveitarstjóri Skútustaðahrepps færði málverk, eftir Bjarna Jónasson Vagnbrekku í Mývatnssveit, að gjöf til Laugaskóla sem Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari framhaldsskólans á Laugum veitti viðtöku.

 

Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari með afmælisrit HSÞ
Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari með afmælisrit HSÞ

Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari setti hátíðina og rakti sögu skólahalds á Laugum í stuttu máli. Hann minnti Þingeyinga á mikilvægi Framhaldsskólans á Laugum í okkar samfélagi og kastaði fram þeirri hugmynd um að nemendum í 8-10 bekk grunnskólanna í héraðinu yrði kennt á Laugum í framtíðinni. Nú þegar fer raungreinakennsla fyrir elstu nemendur Þingeyjarskóla fram í framhaldsskólanum og sá Sigurbjörn ekkert því til fyrirstöðu að kenna nemendum á grunnskólaaldri meira en bara raungreinar.

Ólafur Arngrímsson skólastjóri Stórutjarnaskóla flutti smá tölu um upphaf kennslu á Laugum árið 1925 sem afi hans hafði skrásett og kom þar margt forvitnilegt í ljós. Margrét Hóm Valsdóttir formaður skólanefndar flutti einnig stutta tölu fyrir hönd skólanefndar.

Að dagskrá lokinni var öllum gestum boðið að þiggja kjötsúpu að hætti Kristjáns kokks í matsal skólans.

 

Jón Óskar Pétursson og Sigurbjörn Árni með gjöf Skútustaðahrepps
Jón Óskar Pétursson og Sigurbjörn Árni með gjöf Skútustaðahrepps

Hér fyrir neðan er brot úr ræðu Sigurbjörns Árna

 

Á þessu ári eru 90 ár síðan formlegt skólahald hófst á Laugum í Reykjadal. Laugaskóli, Alþýðuskóli Þingeyinga var settur í fyrsta sinn, fyrsta vetrardag, árið 1925 og hefur skóli verið starfandi alla vetur síðan. Haustið 1925 settist 61 nemandi á skólabekk í tveimur vestari burstum í Gamla skóla. Í haust þegar Framhaldsskólinn á Laugum var settur komu hér 107 nemendur til að stunda nám í þeim sjö byggingum sem ætlaðar eru til náms, búsetu og félagsstarfs hér á staðnum. Flestir hafa nemendur við skólann verið, veturinn 1969 – 1970, 152 talsins.

 

Á þessum 90 árum hafa vissulega orðið breytingar á skólahaldi í takt við þjóðfélagsbreytingar og hafa stjórnendur skólans ætíð haft vegsemd og virðingu að starfsemi hans og hefur gott og öflugt þróunarstarf verið unnið á undanförnum árum. Ég vona að þið njótið þessarar samverustundar með okkur hér á 90 ára afmæli skólahalds í Laugaskóla. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari.

 

Úr reglugerð Alþýðuskóla Þingeyinga. 

1. grein. Markmið skólans er að styðja þjóðlega heimilismenningu…

2.  grein…skal starfa frá veturnóttum til sumarmála.

3. grein. Fastar námsgreinar skulu vera íslenska, saga og félagsfræði, landafræði, reikningur, náttúrufræði, söngur, íþróttir, heimilisiðja og eitt erlent tungumál. …

4. grein…veitt fræðsla í alm. fræðigreinum.

5. grein…lögð áhersla á að gera nemendur sem sjálfstæðasta við námið og kenna þeim tök á því að afla sér þekkingar og þroska…

6. grein. Próf skal vera í lok hvers skólaárs…

7. grein. Allir nemendur skólans skulu hafa útivist klukkustund daglega. Skulu allir nemendur eiga skíði og skauta og hentugan fatnað til útivistar.

8. grein…að skólinn eignist gott bókasafn…

 

Á Laugum er löng og rík menntahefð og í raun og veru er saga Laugaskóla menningarsaga Þingeyinga drjúgan hluta 20. aldar. Síðan þá er mikið vatn til sjávar runnið og miklar og margvíslegar breytingar hafa orðið á skólakerfinu í landinu og þá um leið skólanum á Laugum.

Framhaldsskólinn á Laugum var stofnaður 1988 með sameiningu Héraðsskólans og Húsmæðraskóla Þingeyinga. Fyrstu ár skólans voru starfræktar fjórar brautir til tveggja og þriggja ára. Var þar um að ræða almenna bóknámsbraut, viðskiptabraut, matvælatæknibraut og íþróttabraut. Árið 1990 var matvælatæknibrautin lögð niður og stofnuð ferðamálabraut í hennar stað. Viðskiptabrautin var síðan aflögð 1993 og ferðamálabrautin hvarf af sjónarsviðinu 1996 en félagsfræðibraut var tekin upp í staðinn það sama ár.

Framhaldsskólinn á Laugum hefur útskrifað stúdenta frá árinu 1993. Fyrst með aðstoð Fjölbrautarskólans í Garðabæ, sem annaðist útskriftina formlega, en síðan 1997 upp á eigin spýtur. Frá árinu 1997 hefur skólinn útskrifað stúdenta af félagsfræði-, náttúrufræði- og íþróttabrautum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við hátíðarhöldin í dag.

Krakkar úr Krílabæ
Krakkar úr Krílabæ
Krakkar frá Barnaborg
Krakkar frá Barnaborg
Nemendur Þingeyjarskóla með Línu Langsokk
Nemendur Þingeyjarskóla með Línu Langsokk
Söngatriði frá nemendum Farmhaldsskólans á Laugum
Söngatriði frá nemendum Farmhaldsskólans á Laugum
Guðný Jónsdóttir spilaði á Altflautu
Guðný Jónsdóttir spilaði á Altflautu
Laugamannasöngurinn sunginn
Laugamannasöngurinn sunginn