Fjölföldun er ekki í boði

0
161

Í upphafi nýrrar árstíðar, eins og nú þegar haustönn er að ganga í garð, óska ég þess ætíð að ég gæti fjölfaldað sjálfan mig. Vegna þess að það er svo ótrúlega margt skemmtilegt, spennandi og uppbyggjandi í boði, lítið bara yfir síður dagblaðanna. Ótal viðburðir, námskeið og tilboð um þátttöku í öllu sem nöfnum tjáir að nefna, auðvitað er þetta framboð bara dásemdin ein í sjálfu sér og vitnar um kraft og líf samfélagsins okkar. Auk þess þarf auðvitað að sinn hefðbundnum störfum heima og heiman og haustverkunum inna og utan bæjar, ekki má gleyma þeim.

Kristín Linda Jónsdóttir.

Staðreyndin er hinsvegar sú að ÖLL höfum við sömu 24 klukkustundirnar í sólarhringnum, þar ríkir algjört jafnrétti, enginn fær fleiri klukkustundir en annar ekki ég heldur. Það er því í raun kjánalegt og sjálfmiðað að kvarta yfir tímaleysi því að við höfum öll sama tímann á meðan við lifum hér á þessari jörð. Tímaskortur verður til vegna þess að við yfir hlöðum lífsvagninn okkar, viljum engu sleppa, höfum ekki bein í nefinu til að segja nei, hvorki við okkur sjálf né aðra og ekkert svigrúm fyrir það óvænta og ófyrirsjáanlega í lífsdansinum. Nöldur um tímaskort vitnar því aðeins um að við sjálf höfum ekki nóg og gott tak á okkar eigin hugsun  og hegðun og náum ekki að skipuleggja okkur á raunhæfan og skynsamlegan hátt heldur höldum áfram að bæta í tímapottinn þó þegar flæði upp úr.

 

Þess vegna verðum við, ég og þú, að velja markvisst og meðvitað hvernig við ætlum að njóta tímans komandi vikur og mánuði. Í atinu á markaðstorgi nútímans eru gylliboðin ótal og við þurfum að gæta þess að áreiti umhverfisins teymi ekki hugann í aðrar áttir en okkar eigin. Það eru okkar draumar, ekki annarra, sem við ætlum að upplifa. Svo þurfum við líka að passa að eftir verið á hverjum degi tóm í dagskránni til þess bara að vera til, rými til að skapa sjálfum sér og sínum óvæntar og viðeigandi sælustundir í takt við daginn, bara þegar að honum kemur. Múlbinding og vanafesta er vísasti vegurinn til leiða, þreytu og dofa. Gefum okkur opið svæði í eigin dagbók til að njóta þess að stökkva á það nýja sem heillar í núinu, þá, þegar þar að kemur. Það er snjallt að minna sjálfan sig á þetta núna þegar við lítum yfir hafsjó ótrúlega spennandi tilboða sem fela í sér tækifæri til að ráðstafa tímanum næstu mánuði. Staðreyndin er sú að ef við upplifum okkur með yfirfulla dagskrá, skuldbundin í báða skó, öllum stundum er ekkert eftir til að grípa óvænta töfra dagsins, ekkert eftir fyrir nú framtíðardagsins, þegar hann kemur, til dæmis núið 12. október, viljum það?

Listin að lifa er ekki einföld því að auðvitað vitum við líka að það er fráleitt að láta bara reka á reiðanum og ætla sér svo sem ekki neitt, nema það hversdagslegasta. Þá sáldrast tíminn í gegnum greipar okkar og safnast í gráa svæðið í lífsbókinni, þennan óeftirminnilega massa sem vantar ljós og líf. Þess vegna grípum við gæsina, skráum okkur, tökum þátt, setjum okkur markmið og röðum viðburðum á línur dagbókarinnar en það er engum til gagns að yfirfylla eigið stundaglas og væl um tímaskort vitnar um skort á sjálfsstjórn og raunsæi. Gleymum heldur ekki að streita er ótrúlega óholl bæði líkamlega og andlega, bókstaflega ávísun á veikindi. Ekki nóg með það, fólk sem er yfirkeyrt og spennt og á þönum allan daginn, hættir að njóta stundarinnar, tapar hluta af sinni eigin hugrænu getu og hæfni og verður hreinlega ekkert skemmtilegt. Það bætir því sannarlega ekki samfélagið okkar að við yfirfyllum dagbókina.

Það er sífelld áskorun að leika sér á jafnvægislínunni í dansi lífsins, ekki of mikið ekki of lítið bara mátulegt…….  og nú er ég bókuð hjá tannlækninum mínum eftir korter, löngu ákveðið stefnumót sem tekur sinn tíma af 24 klukkustundum þessa sólarhrings og tóma stundin liðin.

Kristín Linda Jónsdóttir