Fjáröflunardagur á Hraunkoti – Söfnun fyrir barnaheimili í Kenía

Á uppstigningardag 25. maí frá kl. 13.00 til 16.00

0
899

Hjónin Tora Katinka Bergeng og Kolbeinn Kjartansson á Hraunkoti í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu, ætla að vera með opinn dag fyrir gesti og gangandi á uppstigningardag, 25. maí nk. frá kl. 13.00 til 16.00. Tilgangurinn er safna peningum til styrktar barnaheimili í Kenía, Hekima Place en um er að ræða barnaheimili sem tekur á móti og elur upp stúlkur sem misst hafa báða foreldra sína úr alnæmi. Frá þessu segir á Facebooksíðu fjársöfnunarinnar.

Þar segir einnig að fram að þessu hafa stúlkurnar þurft að flytja á heimavist þegar þær fara í menntaskóla. Nú stendur til að byggja menntaskóla hjá barnaheimilinu og bjóða börnum í þorpinu líka upp á frekari skólagöngu.

Í febrúar sl. fórum við hjónin til Kenía, heimsóttum m.a. barnaheimilið þar sem Tora vann sem sjálfboðaliði fyrir 11 árum siðan, hrifumst mjög af því starfi sem þar fer fram.
Við viljum leggja okkar af mörkum og ætlum því að bjóða upp á skemmtilegan dag hér á Hraunkoti, fyrir jafnt unga sem aldna, sem vilja koma og skoða dýrin okkar og upplifa sveitastemninguna.

Frá Kenía. Mynd: Tora Katinka Bergeng

Hér á Hraunkoti er fjölbreyttur bústofn, kýr, naut og kálfar, kindur og nýfædd lömb, hænur, hundur og hestar og nýlega fæddust sex kanínuungar sem einnig verða til sýnis. Þá verða hestarnir til taks og við munum teyma undir þeim sem vilja fara á bak. Einnig verður hoppukastali á staðnum fyrir yngstu börnin.

Aðgangseyrir er 1.000.- krónur á mann, innifalið vaffla, kaffi og djús.

Vonandi sjáum við ykkur sem allra flest hér á Hraunkoti fimmtudaginn 25. maí nk., því þannig getum við öll átt ánægjulegan dag og um leið stutt við þetta verkefni.