Fjalla-Daði finnur fé á lífi

0
229

Enn finnast kindur á lífi. Í gær, laugardag, fann Daði Lange Friðriksson tvær ær vestur af Hrossaborg. Daði eða eins og sumir eru farnir að kalla hann “Fjalla-Daði” vegna þess hve fundvís hann hefur verið á kindur í vetur,  fann ásamt Hólmgeiri Eyfjörð tvær ær vestur af Hrossaborg. Að sögn Daða skruppu þeir félagar á rúntinn og keyrðu suður á Glæður og til baka.

Fjalla-Daði og Egill Freysteinsson með ærnar.
Fjalla-Daði og Egill Freysteinsson með ærnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þar sáu þeir gamlar slóðir í snjó og Daði ákvað að skoða það nánar. Fljótlega rak hann augun í ærnar í 7-800 m fjarlægð. Þeir höfðu samband við Egil Freysteinsson bónda í Vagnbrekku og hann kom með tíkina Skottu til þess að handsama þær.
Ærnar reyndust vera í eigu Þorsteins Aðalsteinssonar bónda á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit. Þær voru báðar lamblausar þegar þeim var sleppt sl. vor. Þær voru spikfeitar og í mjög góðu standi, að sögn Fjalla-Daða.

Skotta aðstoðar við að handsama ærnar.
Skotta aðstoðar við að handsama ærnar.