Ferðasaga

0
155

Kvenfélag Ljósvetninga var stofnað 1905 eins og svo mörg kvenfélög. Í upphafi var megin stefnan að: ,,efla félagslega samvinnu kvenna, sem miði að því að vekja áhuga þeirra sjálfra og almennings á því að efla sjálfstæði kvenþjóðarinnar út á við og auka menntun kvenna“. Í dag halda kvenfélögin ýmis námskeið fyrir félagskonur, en mest er þó hugað að fjáröflunum til að styrkja ýmis góð málefni. Undanfarin ár hefur Kvenf. Ljósvetninga t.d. styrkt Velferðarsjóð Þingeyinga, Skógarbrekku á Húsavík, Fæðingardeildina á Akureyri, Gigtarfélagið margt fleira.

En svo gera konurnar sér dagamun af og til, konur úr Kvenfélag Ljósvetninga fóru í dagsferð á miðvikudaginn. Ákveðið var að halda austur á land. Lagt var af stað frá Fosshóli kl. 10:00 í svarta þoku og súld, en ekki var súld í konunum því þær voru hressar og glaðar. Bílstjóri var Helen Jónsdóttir sem er afbragðs bílstjóri en líka uppátækjasöm og skemmtileg. Ekið var sem leið liggur yfir Fljótsheiði og uppí Mývatnssveit, þar var gert 10 mín stopp til að rétta úr sér. Þá var ekið um Búrfellshraun, framhjá Hrossaborg yfir Jökulsá og í Möðrudal. Helen var með geisladisk með sögum af Stefáni frá Möðrudal, þar sem góðvinur hans sagði frá samskiptum þeirra, skemmtilegum tilsvörum og uppátækjum Stefáns. Þegar komið var í Fjallakaffi beið okkar hinn fínasti matur og notalegt spjall yfir matnum. Við kíktum á kirkjuna og sáum litla yrðlinga að leik. Eftir gott stopp í Möðrudal var ekið um vestari Möðrudalsfjallgarð, yfir Geitasand sem er gróðursnauður og grár, Möðrudalsfjallgarð austari og sáum Skessugarð í fjarska. Um Skessugarð segir: ,, er forn jökulgarður sem liggur rétt vestan við Sænautafell, um 2 km sunnan gamla Austurlands­vegar, þvert yfir Grjótgarðsháls. Eitt mikil­fenglegasta náttúru­­fyrirbæri hér á landi. Garðurinn sem er a.m.k. 5 m á hæð, eins konar múr, byggður úr tröll­auknum björgum úr dílabasalti. Í þjóðsögum segir að þarna hafi skessur tvær hlaðið landmerki sín, eftir rifrildu um veiðirétt í vatninu“.

Þá vorum við loks komnar út á þjóðveg nr. 1 og þar með malbik. Ekki get ég dásamað fjallasýnina því lítið sá til þeirra, en þá var bara því meira spjallað inni í bílnum. Áfram var ekið og aðeins rétt úr sér á Egilsstöðum og þar fengu flestar sér ís. Nú var rennt inn á Hallormsstað, þar býr Hrafnhildur Hólmgeirsdóttir fyrrverandi kokkur í Stórutjarnaskóla, hún tók vel á móti okkur með faðmlagi og sumardrykk, hún sýndi okkur gróðurhús sitt og hafði gaman af að hitta þarna fyrrverandi nágranna og samstarfskonur. Hún ákvað að slást í för með okkur og koma á kaffihlaðborð að Skriðuklaustri, Hrafnhildur er að vinna þar í sumar. Við fengum m.a. að smakka Hvannarsultu, fíflasýróp og hrútaberjasultu ásamt veglegu veisluhlaðborði. Stutt frá er Snæfellsstofa upplýsingamiðstöð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð þangað fórum við og þar var margt áhugavert að sjá og heyra. Sjón er sögu ríkari, bæði fyrir fullorðna og börn. Nú var langt liðið á daginn. Hrafnhildur var kvödd og henni þakkaðar góðar móttökur. Ekið var norðanmegin við Lagarfljót, einhverjar sögðust hafa séð Lagarfljótsorminn og töldu það ekki fara á milli mála að hann er þarna. Ekið var sem leið liggur heim á leið en stoppað á Skjöldólfsstöðum. Þar er Ólavía Sigmarsdóttir með leðurvinnslu, hún saumar og hannar ýmsa fallega muni, þegar við litum inn var hún að hanna og klippa út úr hreindýdaleðri ,,skó“ á innréttingar sem fara í nýja gistiaðstöðu sem fljótlega verður opnum á Skjöldólfsstöðum. Margar konur keyptu sér eitthvað fallegt þarna. Jæja nú var það lokakaflinn og ekið sem leið liggur yfir fjöllin og niður í Mývatnssveit og slakað á í bílnum. Þegar við vorum að renna inní þorpið, kallar ein ,,eigum við að deila með okkur pizzu?“ já já það voru flestar til í að smakka Daddi´s pizzu. Þá var stoppað og 3 stórar pizzur pantaðar og ekki leið á löngu þar til þær komu ilmandi á borðið og runnu ljúflega niður. Ekið var leiðin sunnan við vatn, þegar við nálguðumst Skútustaði fundum við ilmandi reykjarlykt, og auðvitað var freistandi að koma við og kaupa glænýjan reyktan silung, beint frá býli. Þarna var svartaþoka og notalegt að sita inni í hlýjum bílnum og láta aka sér heim á leið. Þetta var hin skemmtilegasta ferð og fróðleg, með mikilli keyrslu en það var alltaf nóg að spjalla á leiðinni. Já kvenfélagskonur eru ekki alltaf ,,bara að baka“.

[dt_divider style=”thick” /]

Myndagallerí – Smellið á myndir til að stækka

[dt_divider style=”thick” /]