Fékk aðeins rúmar 16 krónur fyrir kílóið af hrossakjöti

"Enn á ný er bændur teknir í rassgatið", segir óhress bóndi

0
3399

Daði Lange Friðriksson bóndi í Austurgarði 2 í Kelduhverfi, sendi hross til slátrunar nú nýlega ásamt fleiri bændum í Kelduhverfi og Öxarfirði sem sameinuðust um að panta flutning á 20 hrossum í sláturhús KS á Sauðárkróki til að ná flutningskostnaðinum niður. Skilaverðið sem þeir fengu fyrir hrossin olli þeim miklum vonbrigðum. Daði Lange Friðriksson sagði frá þeim viðskiptum í eftirfarandi status á Facebook í morgun

Eins og fram kemur hjá Daða fékk hann aðeins 2.688 krónur fyrir hann Tinna sinn sem var 10 vetra gamall, en það gerir ekki nema 16,6 krónur í skilaverð á hvert kíló, þegar búið er að draga flutningskostnað frá. Miðað við þetta geta sauðfjárbændur vel við unað með skilaverð á hvert kíló.

Daði Lange Friðriksson

Í Bændablaðinu 9. febrúar og í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun um útflutning á hrossakjöti til Japans og sagt að hátt verð fáist fyrir kjötið í Japan.

“Verðið sem fæst fyr­ir kjötið er það hæsta sem greitt er fyr­ir út­flutt kjöt frá Íslandi”, segir í frétt mbl.is.

En svo virðist vera að þetta háa verð á hrossakjöti skili sér illa til innleggjenda sem eru í flestum tilfellum bændur.

 

Enn á ný eru bændur teknir í rassagatið

Í spjalli 641.is við Daða Lange í morgun sagði hann að skilaverðið fyrir Tinna hefði ollið sér miklum vonbrigðum og þá sérstaklega eftir fréttaflutning af háu skilaverði á hrossakjöti til Japans.

“Enn á ný eru bændur teknir í rassgatið og svo er auglýst grimmt eftir hrossum til slátrunar, en verðið sem fæst fyrir hrossakjöt er ekki neitt og hefur farið lækkandi síðan árið 2015″, sagði Daði.

Sveinn Steinarsson formaður Félags Hrossabænda og Erlendur Á Garðarsson framkvæmdastjóri IM ehf. markaðar, sem annast hefur útflutning og sölu á hrossakjötinu til Japans, eru báðir staddir í Japan, en Erlendur ætlar að svara fyrispurn 641.is um hve hátt verð fæst fyrir hrossakjötið í Japan þegar þeir koma heim.