Fast 8 – Langavatn sprengt upp

0
476

Samkvæmt heimildum 641.is hefjast tökur á Fast 8 (Fast and the Furious 8) 14. mars nk. á ísnum á Mývatni. Mikill undirbúningur vegna þeirra er þegar hafinn og búið er að reisa þrjár vinnuskemmur vegna takanna. Tvær þeirra standa fyrir fram hótel Gíg og ein rétt við gamla fótboltavöllinn nálægt Álftagerði, við bakka Mývatns.

Mývatn Fast 8 2
Vinnuskemma að rísa rétt við gamla fótboltavöllinn á bakka Mývatns. Ekki var búið að setja dúkinn á hana þegar þessi mynd var tekin. Mynd: L.A.

 

Eins og fram kom hér á 641.is í gær þarf að moka snjó af ísnum á Mývatni á um 40 hektara stóru svæði þar sem taka á upp atrið þar sem ekið er á ís. Ljóst er að það verk er næstum endalaust á meðan snjóar.

Samkvæmt heimildum 641.is mun einn bíll eiga að fara niður í gegnum ísinn á Mývatni í einu atriðnu og er búið að moka upp “snjóbrú” sem liggur frá einum hól á bakka Mývatns, út á ísinn vegna þess.

 

Langavatn sprengt upp

Í einu atriði í myndinni á að sprengja upp ís og lengi vel reyndist erfitt að finna stöðuvatn sem var nógu djúpt, svo að það kæmi ekki bara drulla upp þegar sprengt væri. Það reyndist líka erfitt að finna stöðuvatn þar sem landeigendur gáfu leyfi fyrir slíkum sprenginum. Samkvæmt heimildum 641.is er búið að finna það vatn og mun það vera Langavatn í Reykjahverfi. 641.is hefur ekki frétt af því hvenær sú taka á að fara fram.

Tvær skemmur að rísa við Hótel Gíg
Tvær skemmur að rísa við Hótel Gíg. Mynd: L.A.

 

Bílarnir í gámum ?

Við Kísiliðjuna standa nokkrir gámar sem fluttir hafa verið þangað að undanförnu og samkvæmt heimildum 641.is verða bílarnir sem nota á við tökurnar á ísnum geymdir í þeim. Gámarnir eru og verða harðlæstir og ekki er vitað hvort einhverjir bílar eru nú þegar geymdir í þeim eða hvort þeir eru tómir og bíða þess að geyma bílanna þegar þar að kemur.

 

Bíldruslur með skel ?

Einn heimildarmaður 641.is heldur því fram að bílarnir sem notaðir verða við tökurnar í Mývatnssveit komi til með að valda vonbrigðum. “Þetta verða bara bíldruslur með skel” og átti þá við að bílarnir litu út fyrir að vera flottir sportbílar, en væru í raun ómerkilegar bíldruslur sem búið væri að setja sportlega yfirbyggingu á til þess að líta út fyrir að vera alvöru spotbílar á velli.

Von er á leikstjóra myndarinnar Felix Gary Gray, (Straight Outta Compton) í aðra skoðunarferð eftir helgi í Mývatnssveit og innan skamms fyllast öll hótelrými í sveitinni af fólki sem koma að tökunum. Samkvæmt kvikmyndavefnum Imbd.com eru leikkonurnar Charlize Theron og Eva Mendes orðaðar við hlutverk í myndinni auk harðhausanna Vin Diesel, Jason Statham og Dwayne Johnson.

Lilja Aðalsteinsdóttir tók meðfylgjandi myndir 17. febrúar.

Frá snjómokstri á Mývatni
Frá snjómokstri á Mývatni 17. febrúar. Mynd: L.A.