Farsi

0
153

Formáli að leikritinu, Hvernig verður Þingeyjarskóli til ? Þetta leikrit varð til eftir að ég hafði lesið grein um sama efni eftir oddvitann okkar hana Ólínu á 641.is þann 16.01. Sú grein byggðist mikið á tilvitnunum í fundargerðir en eins og allir vita sem hafa setið fund, kemur stundum lítið fram í þeim um það sem býr að baki, auk þess sem þær eru engin skemmtilesning, að minnsta kosti ekki þessar.

Bergljót Hallgrímsdóttir
Bergljót Hallgrímsdóttir

Leikritið er tilraun til að bæta úr þessum ágöllum og er efnið stolið, stælt og eilítið skrumskælt úr og eftir samræðum og öðru sem ég hef heyrt og upplifað í sveitarfélaginu undanfarin ár. Bergljót Hallgrímsdóttir.

 

 

Hvernig verður Þingeyjarskóli til: Leikrit í 3 þáttum, persónur og leikendur af ýmsu tagi

1. þáttur: Gerist í fortíðinni í sandkassanum Kjarna:

Jæja krakkar. Við þurfum að gera eitthvað í þessum skólamálum
Ja, fengum við ekki einmitt að leika okkur í sandkassanum út á það að gera ekki neitt, einmitt í þeim málum?
Við þurfum samt að gera eitthvað í þessum málum. Við hin fengum að leika hér af því að við ætluðum að gera eitthvað
Það eru til dæmis foreldrar í sveitarfélaginu sem hafa áhyggjur á félagslegri stöðu barna sinna í þessum mjög svo fámennu skólum
Og sumum finnst sukk á opinberu fé að vera með þrjá grunnskóla með einni, eða eitthvað þar um bil, bekkjardeild hver
Ókei, við verðum þá einhvern veginn að friða þetta lið svo að það lofi okkur að vera áfram í sandkassanum, ef við skyldum nenna því
En hvað eigum við þá að gera?
(Þögn)
Sameinum þetta bara í einn skóla og ….
… ertu vitlaus manneskja, veistu ekki hvað það eru miklar vegalengdir í þessu sveitarfélagi, ætlarðu að láta börnin sitja í skólabíl allan daginn?!
Uh, nei auðvitað ekki en var ekki verið að tala um fámenni og hættu á félagslegri einangrun barna – hvernig á að bæta úr því nema að sameina skólana í einn?
Og hvernig ætti að gera það?
Byggja nýjan skóla miðsvæðis í sveitarfélaginu.
Já einmitt og hvað er þá miðsvæðis?
Nú auðvitað hjá okkur í þéttbýlinu á Laugum
Ha, ha, þið eruð nú alveg út á enda
Já er það, ekki ef að Mývetningar sameinast okkur
Eru þeir eitthvað á leiðinni?
Niður á jörðina með ykkur. Við erum ekkert að fara að byggja nýjan skóla, við rétt skrimtum
Stórutjarnaskóli er auðvitað eini boðlegi skólinn í sveitarfélaginu, honum er vel við haldið og reglulega lagður kostnaður í að bæta aðstöðuna þar svo að hún er öll hin besta
Nei það gengur ekki og ef út í það er farið er hann líka á sveitarenda fyrir okkur sem búum austan við heiði, þó hann sé það kannski ekki inni í skarði – og svo er snjóflóðahætta á leiðinni þangað, nei takk!!
Hm, hm, hvernig væri að hafa bara skólann í Hafralækjarskóla, hann er nú nokkuð miðsvæðis?
Miðsvæðis, ertu frá þér! Ekki fyrir okkur innan við heiði, við getum nú alveg eins keyrt börnin til Húsavíkur og hvað voruð þið svosem að vilja inn í skólaruglið hjá okkur, af hverju gátuð þið ekki bara sameinast norður?
Svona, svona, krakkar, það er líka allt of langt að keyra lengst sunnan úr Reykjadal út í Hafralækjarskóla
Sei, sei, lengra er nú lengst sunnan úr Bárðardal út í Stórutjarnaskóla
Krakkar! Bíðiði hæg ! Við eru aftur komin á upphafsreit, við getum ekki byggt nýjan skóla miðsvæðis, sem enginn veit hvar er, og enginn vill leggja niður sinn skóla og keyra í annan. Hvað er í gangi með ykkur?!
Já en við lofuðum að gera ekki neitt, hvert er málið?
Krakkar, uss (hvísl), er ykkur ekki sama þó að við ákveðum bara að ekki verði hróflað við Stórutjarnaskóla og sjáum svo til með hitt, ha?
Já en …
… fínt mál, styð það, þá minnkar um eitt vesen, ég styð það líka og ég líka og ég líka!
Þá er það ákveðið – eins og þeir segja ræningjarnir í Kardimommubæ.
Tökum okkur pásu. Jæja strákar …. og stelpur, allir í boltanum …..
(Að lokinni pásu)
Hey, af hverju flytjum við ekki bara restina í Litlulaugaskóla? Þar á Laugum er svo fínt íþróttahús – og sundlaug
Hm, já en börnin eru nú ekki alltaf í leikfimi og skólahúsið sjálft er nú ekkert til þess að hrópa húrra fyrir enda ekki byggt sem grunnskóli
Við erum nú að leggja pening í að laga það svo það stendur allt til bóta
Hm, hm, fyrirgefiði en Hafralækjarskóli er alla vega byggður sem grunnskóli og svo er íþrótta- og samkomuhús rétt hjá honum og sundlaug í skólanum sjálfum
Þvuh! það er ekkert viðhald á þessum skólamannvirkjum á Hafralæk. Ég hef heyrt að það séu tíu bala hús ef að eitthvað rignir ha, ha!
Það lekur víst líka íþróttahúsið á Laugum
Já en það er samt miklu stærra hús og líka sundlaugin, hún er nú bara drasl á Hafralæk
Við gætum nú sett einhvern smápening í hana
Já, já, fara bara að spreða í sundlaugar út um allt, þetta litla sveitarfélag, eins og það sé nú ekki nógu erfitt að reka eina
Nú! Við spreðuðum nú í sundlaugina í Stórutjarnaskóla hér um árið og rekum hana
Það er nú allt annað mál, höldum okkur við efnið, við verðum að hafa grunnskólann á Laugum, auðvitað
Nú?
Já. Þetta er þéttbýliskjarninn í sveitarfélaginu
Ha, hvað?
Já, og svo er þar framhaldsskóli, hvað haldið þið að verði um hann ef ekki er grunnskóli á staðnum?
Bah?
Hey, muniði! Létum við ekki einhvern vinna skýrslu þarna um árið um hvaða áhrif það hefði á stöðu framhaldsskólans ef grunnskólinn færi?
Jú það held ég
Hvað stóð í henni?
Man það ekki, líklega ekkert merkilegt
Já hvað um það – hvernig haldið þið að við fáum kennara í framhaldsskólann ef enginn grunnskóli er þar. Fólk velur náttúrulega búsetu eftir því hvort grunnskóli er á staðnum. Viljiði bera ábyrgð á því að framhaldsskólinn, stóriðjan okkar, leggi upp laupana af því að það fást ekki kennarar?
Ha, nei, nei, en er þetta nokkur stóriðja, þarna eru bara kennarar, eru þeir ekki alltaf að kvarta yfir lélegum launum?
Hættum þessari þvælu, við komumst greinilega ekki að neinni niðurstöðu
(Bankað á sandkassabrúnina)
Klöngrastu yfir!
Komiði sæl má ég kynna mig, ég er frá Snjalllausnum ehf , afsakið en ég heyrði óvart að þið eigið í vanda svo mér datt í hug að bjóða aðstoð
Ha! Enn ein ráðgjöfin og skýrslan um skólamál í sveitinni, er nú ekki búið að henda nógum peningum í svoleiðis
Nei, nei, þetta er ókeypis snjalllausn og hún er snjöll: Sko, hlustið þið nú einu sinni. Ég legg til að þið búið til eina skólastofnun en hafið tvær starfsstöðvar, nefnilega báða gömlu skólana. Þið vitið að kannanir varðandi skólamál í sveitarfélaginu sýna að fólk vill fækka skólum en bara ekki leggja niður sinn skóla innan gæsalappa. Af því leiðir að við leggjum engan skóla niður en sameinum samt, þá verða allir ánægðir. Svona er að vinna faglega
Já en við eru í pólitík hérna í sandkassanum til þess að taka ákvarðanir og leitast við að hagræða og spara í rekstrinum í sveitarfélaginu og þar vegur rekstur skólanna þungt
Nei, nei, nei og aftur nei, aldeilis ekki, skólamál eru ekki pólitík, þau eru tilfinningamál og sem slík mjög viðkvæm. Ekki viljið þið að einhver sem kannski lofaði ykkur að leika í þessum sandkassa gangi grátandi til sængur í kvöld af því að það er búið að leggja niður skólann hans
Uhu, nei auðvitað ekki en við erum líka að tala um peninga?
Það megið þið alls ekki gera, peningarnir eru tabú, allir vita að það þarf mikla peninga í grunnskólann og enginn vill vera uppvís að því að vilja ekki búa eins vel og hægt er að bönunum í sveitarfélaginu. Hafiði fjárhagsáætlunina fyrir grunnskólann bara ríflega. Og svo eru alltaf þessar Písakannanir. Fólk hefur hvort sem er almennt enga hugmynd um hvað reksturinn kostar eða hvað hann ætti að kosta. Hækkið þá bara útsvarið ef þarf (sjá 641.is þann 14.12 2013, Útsvar hækkar í 14,52%) . Búa ekki aðallega gamlingjar í þessu sveitarfélagi fyrst það eru svona fá börn? Þeir eiga alltaf pening í handraðanum, ekki fara þeir með þá með sér yfrum
Já en með þessum „samruna“ erum við ekki gera neitt!
Frábært, þá erum við ekki að gera neitt!
Krakkar, hvernig líst ykkur á að hafa þetta svona „Með samrunanum er horft til þess að hægt verði að þróa aukið samstarf nemenda, starfsfólks og foreldra á þessum tveimur starfsstöðvum. Við þá þróun verði hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi. Með samrunanum verði sköpuð aukin tækifæri til að bæta stöðu nemenda námslega og félagslega.“(tilvitnun af heimasíð 641.is úr greininni Svar til Atla Vigfússonar birt þann 16.01 2014)
Krakkar!! Sjáiði ekki snilldina! Við ætlum að hugsa sérstaklega um börnin, bæði félagslega og námslega. Er það ekki það sem foreldrar eru að biðja um? Nú verða allir ánægðir og við ætlum sko aldrei, aldrei að breyta
Jú. Þetta er flott klausa hjá þér og nýi samruninn gæti heitið Menntastofnun Þingeyinga og við fáum auðvitað nýja kennitölu, töff?! En skólarnir hafa samt áfram sitt nafn svo að engum finnst hann vera að missa neitt. Við erum sko að tækla þetta laglega!
Nú en hvað þá með Stórutjarnaskóla, er hann ekki menntastofnun Þingeyinga líka?
Ókei, auglýsum þá eftir nafni
Þurfum við ekki líka að auglýsa stöður, allavega stjórnunarstöður, þegar við erum að gera nýja stofnun?
Nei, nei, hvernig ætlið þið að útskýra fyrir einhverju utanaðkomandi fólki hvað er í gangi hérna? Þið verðið að halda andlitinu og halda bara öllum, eða að minnsta kosti flestum og þá eru allir ánægðir og enginn fer að kjafta neitt
Já en hvernig höfum við þá efni á að styðja við skólaþróun og framtíðarsýn fyrir grunnskólann ef við fækkum ekki fólki né skólum?
Já, látum okkur nú sjá – eruð þið nokkuð búin að gera skólastefnu?
Uh, er það nú eitt vesenið enn?
Frábært, þið gerið skólastefnu og segið að þið hafið þá framtíðarsýn að í sveitarfélaginu skuli vera tveir grunnskólar í stað þriggja, annar með tvær starfsstöðvar sem eiga að þróast, það er skólaþróun. Þá eru þið komin með þetta. Þið gætuð þróað nýjar rútur til milliferða. Bingó. Setjið svo bara fullt af peningum í þetta og allir verða ánægðir
Krakkar!!! Samþykkjum þetta bara frekar en ekkert (handaupplyftingar), já gott hjá ykkur, takk fyrir snjalllausnina – förum núna heim.
Tjaldið fellur

2. þáttur: Gerist í núinu út um alla sveit, skrifar sig sjálfur, sjá t.d grein á 641.is þann 12.01

3. þáttur: Er enn óskrifað blað. Gerist örugglega eftir sveitarstjórnarkosningar í vor eða í einhverri framtíð. Snjalllausnir ehf þó líklega ennþá reiðubúnar til þjónustu:

Endir.