Eyþór Kári Ingólfsson er íþróttamaður HSÞ 2017

0
660
Eyþór Kári Ingólfsson er íþróttamaður HSÞ 2017

Eyþór Kári Ingólfsson var í dag valinn íþróttamaður HSÞ 2017 á ársþingi HSÞ sem var haldið í Ýdölum. Eyþór, sem einnig var valinn frjálsíþróttamaður HSÞ, var valinn úr hópi átta íþróttamanna sem valdir voru íþróttamaenn ársins í hverri íþróttagrein fyrir sig á ársþinginu.

Í umsögn um Eyþór segir:

Eyþór Kári Ingólfsson hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri. Hann hefur prófað margar greinar og náð góðum árangri í þeim flestum. Síðasta tímabil hefur hann lagt áherslu á hástökk og stangarstökk og verið að gera það mjög gott. Eyþór stóð sig mjög vel í frjálsum á árinu 2017.  Á stórmóti ÍR sem fram fór í febrúar varð hann í 3.sæti bæði í hástökki og stangarstökki. Á MÍ 15-22 ára innanhúss varð hann í 6.sæti í stangarstökki en með persónulega bætingu. Hann varð í 1. sæti í hástökki og stangarstökki á sumarleikum HSÞ og með persónulega bætingu í stangarstökkinu. Á unglingalandsmótinu varð hann í 3. sæti í hástökki en samtals bætingar í 5 greinum en Eyþór hefur metnað fyrir að keppa í sem flestum greinum og gerir vel.  Á UFA móti seinnipartinn í sumar varð hann í 1.sæti í stangarstökki og hástökki og 2.sæti í 100m hlaupi. Á MÍ 15-22 ára utanhúss í ágúst náði hann einnig 3. sæti í stangarstökki.

Fyrir utan góðan árangur í frjálsum þá hefur Eyþór verið samviskusamur að mæta á æfingar og sýnt mikinn metnað í því sem hann er að gera. Hann hefur alltaf verið tilbúinn að aðstoða þjálfara, hvort sem það er á æfingum eða taka að sér æfingar í afleysingu þjálfara

Eftirtaldir voru valdir íþróttamenn ársins í hinum ýmsu greinum:

Dagbjört Ingvarsdóttir Knattspyrnumaður HSÞ
Pétur Þórir Gunnarsson Glímumaður HSÞ
Tómas Veigar Sigurðarson Skákmaður HSÞ
Anna Halldóra Ágústdóttir Langhlaupari HSÞ
Sladjana Smiljanic Blakmaður HSÞ
Sverrir Sigurðsson Bocciamaður HSÞ
Gylfi Sigurðsson Skotmaður HSÞ
Eyþór Kári Ingólfsson Frjálsíþróttamaður HSÞ
Hvatningarverðlaun: Elmar Örn Guðmundsson