Eru til sameiginlegir þingeyskir hagsmunir?

0
86

Af og til er enn vitnað til þeirrar miklu samfélagshreyfingar sem til varð hér í Þingeyjarsýslu á nítjándu öldinni , þar sem fátækir bændur, í krafti samstöðu um sameiginlega hagsmuni, stofnuðu með sér samtök um verslun og vinnslu afurða sinna. Áttu í beinum samskiptum við útlönd, bæði  í viðskiptum og í menningar- og félagsmálum.  Þessi hreyfing og sú hugmyndafræði samvinnu sem hún byggði á hefur oft verið talin einn af lykilþáttum í þeirri þróun sem varð á íslensku samfélagi á tuttugustu öldinni.

Reinhard Reynisson
Reinhard Reynisson

Einhvers konar skilgreining á sameiginlegum hagsmunum á mörgum sviðum hefur einnig fram að þessu  legið til grundvallar skipulagi á ýmissi starfsemi hér í héraði, hvort sem er frjálsu félagsstarfi eða opinberri þjónustu.  Má þar nefna ungmennafélagshreyfinguna, búnaðarsambönd, sýslumannsembætti, heilbrigðisþjónustu og ýmsa starfsemi sveitarfélaganna, s.s. félags- og skólaþjónustu, bruna- og almannavarnir, skipulags- og byggingarmál og sorphirðu og eyðingu.

 

 

Aukið samstarf

Breyttir atvinnuhættir,  tæknivæðing framleiðslugreina, bættar samgöngur og  auknar kröfur til opinberrar þjónustu á ýmsum sviðum hafa bæði kallað á og gert kleifar ýmsar breytingar á því hvernig þessum sameiginlegu hagsmunum hefur verið sinnt í gegnum tíðina. Ef ég horfi á þann tíma – frá 1990 – sem ég hef verið þátttakandi í þingeysku samfélagi, hefur þróunin að mestu og lengst af verið í þá átt að svæðið væri að þéttast í þeim skilningi að samstarf sem næði til þess alls væri að eflast. Þannig voru héraðsnefndir Norður- og Suður Þingeyinga sameinaðar um miðjan tíunda áratuginn. Sameinuð héraðsnefnd varð vettvangur sveitarfélaganna til að ráða sínum sameignlegu hagsmunamálum og það sem ekki  síður skipti máli, vettvangur sameiginlegra þjónustuverkefna, s.s. félags- og skólaþjónustu, almannavarna og fl. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga varð til við sameiningu smærri stofnana sem starfað höfðu á svæðinu og þannig tóku menn sameiginlega ábyrgð á þeirri mikilvægu þjónustu sem oft hafði reynst erfitt að manna á jaðarsvæðunum.  Árið 2007 voru svo ungmenna- og héraðssamböndin sameinuð undir nafni Héraðssambands Þingeyinga.

Auðvitað hefur svæðið þurft að takast á við erfiðleika þegar kemur að atvinnumálum og þar held ég að fall Kaupfélags Þingeyinga, lokun Kísiliðjunnar, ákvörðun ÚA að hætta starfsemi  á Raufarhöfn og nú ákvörðun Vísis um að loka á Húsavík, standi upp úr ef svo má segja. Hvað sem um ástæður þeirra atburða má segja eru þeir staðreyndir sem ekki verður breytt úr því sem komið er. Hugsanlega hefði þó getað farið öðruvísi í einhverjum þeirra ef samfélagið í sýslunni hefði verið þéttara þannig að menn hefðu haft sterkari sameiginlega sýn á þá hagsmuni sem í húfi voru.

Minnkandi samstarf

Það er einmitt þessi þéttni samfélagsins í sýslunni,  eða öllu heldur minnkun hennar á undanförnum árum, sem er kveikjan að þessum hugleiðingum. Þrátt fyrir, eða að einhverju leiti kannski vegna þess, að nokkur árangur hefur náðst við að sameina sveitarfélögin á svæðinu og þannig styrkja þau hvert fyrir sig, virðist margt benda til þess að hugmyndin um sameiginlega þingeyska hagsmuni hafi veikst. Frá 2006 hafa sveitarfélögin á svæðinu verið að draga saman samstarf sitt á sameiginlegum vettvangi héraðsnefndar og annað hvort tekið þann rekstur til sín beint eða sett einstök verkefni í sérstök félög. Þetta hefur m.a. leitt til þess að hinn sameiginlegi pólitíski vettvangur sem héraðsnefndin var hefur misst allt vægi sitt. Hugmyndir um samstarf í brunavörnum sem voru komnar til umræðu á sínum tíma hafa ekki haft neinn framgang og nú eru rekin þrjú slökkvilið í héraðinu. Í stað þess að byggja upp öfluga einingu á sviði skipulags- og byggingarmála eru þau verkefni nú rekin í a.m.k. þrennu lagi, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma niður á faglegum styrk starfsins. Nú síðast stendur svo til að leysa upp Sorpsamlag Þingeyinga og að sveitarfélögin bjóði sjálf út sorphirðu og eyðingu.

Þetta minnkandi samstarf sveitarfélaganna og veiking á sameiginlegum pólitískum vettvangi þeirra kemur svo líka fram í því að öll héraðsbundin hagsmunagæsla gagnvart ríkisvaldinu veikist.c Þannig hef ég það fyrir satt að mjög lítill þrýstingur hafi verið af hálfu sveitarfélaganna gegn þeim áformum að leggja hér niður sýslumannsembættið. Aðeins barst ein stutt athugasemd frá einu sveitarfélagi við þau áform til allsherjarnefndar Alþingis sem um málið fjallaði. Að sama skapi virðast engir tilburðir uppi varðandi það að verja sjálfstæða heilbrigðisþjónustu í héraðinu. Þó er ljóst að samrekstur hennar með félags- og öldrunarþjónustu sem sveitarfélögin hafa nú þegar á hendi gæti skapað verulega samlegð og sóknarfæri til betri velferðarþjónustu á svæðinu. Næst er svo líklega komið að atvinnu- og byggðamálunum sem rekin eru á vegum atvinnuþróunarfélagsins, þ.m.t. vaxtarsamningur, sem hefur haft talsverða fjármuni til að styðja við margvísleg þróunarverkefni hér á svæðinu. Ríkisvaldið þrýstir hins vegar á um að það starf færist undir forræði landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í okkar tilfelli undir Eyþing og verði þá sameiginlegt með Eyfirðingum.

Hver er sýnin?

Nú kann vel að vera að það sé skoðun þingeyskra sveitarstjórnarmanna að það séu einfaldlega engir sameiginlegir þingeyskir hagsmunir sem ástæða sé til að standa vörð um. Þeir hagsmunir sem máli skipta séu innan hvers sveitarfélags um sig og e.t.v. með næstu nágrönnum í einstökum málaflokkum, sem þá eru leystir með sérstökum samningum.  Sameiginlegir hagsmunir liggi í stærra samhengi, t.d. innan Eyþings en ekki þeirrar einingar sem fram að þessu hefur verið nefnd þingeysk og það með talsverðu stolti. Sama hvort er þá er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að eftir því sem samstarfsflötunum er fækkað þá veikjast forsendur þess samstarfs sem eftir stendur. Þannig verður erfiðara að verja það eitt og sér ef að er sótt, en einnig hefur minnkandi samstarf í héraði í för með sér lakari stöðu í hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldinu, enda erfitt að halda því fram við ríkisvaldið að svæðið sé einhvers konar eining þegar þess sér sífellt minni stað í starfi sveitarfélaganna sjálfra.  Þá er eðli samvinnunnar nefnilega þannig að til þess að jafnvægi sé á þarf samstarfið að vera á mörgum sviðum, um mörg verkefni, þar sem einstakir samstarfsaðilar leggja fram til ákveðinna verkefna en njóta í öðrum. Ef menn ætla einungis að taka  þátt í þeim sem þeir njóta en ekki þeim sem þeir gætu þurft að leggja til, fellur samstarfið um sjálft sig.

Þeir sem gefa kost á sér til að leiða þingeysk sveitarfélög til næstu ára þurfa að velta þessum hlutum fyrir sér, marka stefnuna og fylgja henni eftir. Það er ávísun á verstu niðurstöðu að þetta þróist áfram handahófskennt og einn daginn, sé það ekki þegar orðið, standi menn frammi fyrir því að hafa engin tök á stöðunni. Hvort Eyþing er rétta svæðisskilgreiningin fyrir sameiginlega svæðisbundna hagsmuni er látið liggja á milli hluta hér enda annar handleggur, eins og góði dátinn Svejk myndi hafa sagt.

Reinhard Reynisson.