Enn er óveður í Þingeyjarsýslu. Hvöss norðanátt með ofankomu, rigning eða slydda í lágsveitum, en snjókomu inn til landsins. Í Mývatnssveit hafa orðið miklar skemmdir á raflínustaurum en þeir hafa brotnað eins og tannstönglar í óveðrinu. Mikil ísing hleðst á raflínurnar og þær þyngjast mjög við það. Það leiðir til þess að mjög mikill þungi leggst á stauranna, sem að lokum brotna undan þunganum. Rafmagnslaust er enn í Mývatssveit og hætt við að þar verði straumlaust áfram því viðgerðarflokkar eru ekki enn komnir á staðinn. Sauðfjárbændur hafa miklar áhyggjur af sínu fé og er hætt við því að miklir fjárskaðar hafi orðið í óveðrinu í nótt og í dag. Veðustofan spáir áfram hvössu með úrkomu og ekki fari að lægja fyrr en í nótt.
