Engar afætur hér úti á landi

0
146

Íbúar Norðausturkjördæmis fá u.þ.b. það sama til baka úr sameiginlegum sjóðum sem þeir leggja fram í formi skatta. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem kynnt var í fyrradag. Fjöldi opinberra starfsmanna ætti að vera mun hærri í kjördæminu en raunin er ef miðað við íbúafjölda. Þá eru skatttekjur lægri í kjördæminu en sem nemur landsmeðaltali og framlög til menningarmála óviðunandi. Frá þessu er sagt á vef Akureyri Vikublaðs í dag.

Frá pallborðs umræðunum.
Mynd: Völundur Jónsson.

Ein niðurstaðan er sú að venjulegur skattgreiðandi í kjördæminu ber skarðan hlut frá borði miðað við skattgreiðendur á landsvísu en í heildina fyrir kjördæmið jafnast búsetuskilyrði á landsvísu með styrkjum og bótum, ekki síst vegna þess að hátt hlutfall íbúa sem starfar við landbúnað hagnast umfram landsmeðaltal vegna ríkisstyrkja við greinina.

Þjónusta og starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi er aðeins 86% af hlutdeild kjördæmisins í mannfjölda þjóðarinnar. Hvort sem miðað er við skattahlutdeild eða skatttekjur geta íbúar kjördæmisins sjálfir staðið undir öllum útgjöldum til vegagerðar og annarra fjárfestinga ríkisins, bóta til einstaklinga og útgjöldum ríkisins vegna landbúnaðar í kjördæminu. Meginniðurstaðan er sú að venjulegur skattgreiðandi í Norðausturkjördæmi fær mun minni þjónustu ríkisins í heimabyggð en á móti koma styrkir við atvinnugreinar og sveitarfélög.

Vantar fleiri opinberar stöður

Rannsóknin var unnin að frumkvæði landshlutasamtakanna í Norðausturkjördæmi, þ.e. Eyþings (Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum) og SSA (Sambands sveitarfélaga á Austurlandi). Markmiðið var að komast að því hve miklu af skattfé ríkisins væri aflað og hve mikið af því er nýtt í Norðausturkjördæmi.

Út frá því sjónarmiði er starfsemi ríkisins á Norðurlandi eystra um 11% minni en mannfjöldi segir til um eða sem nemur rúmlega 74 þúsund krónum á hvern íbúa á ári. Með sama hætti er starfsemi ríkisins á Austurlandi (utan Hornafjarðar) um 23% minni en mannfjöldi segir til um eða sem nemur rúmlega 159 þúsund krónum á hvern íbúa á ári.

Á hinn bóginn leggur ríkið til svipaða upphæð annars vegar til að stuðla að því að þjónusta sveitarfélaga sé sambærileg því sem gerist annars staðar og hins vegar til að styðja við landbúnað á þessum svæðum. „Því má segja að þokkalegt jafnvægi sé milli tekna og útgjalda ríkisins en almennir skattgreiðendur fái á hinn bóginn talsvert minna fyrir skattana sína í Norðausturkjördæmi en á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í skýrslu um rannsóknina.

Á rekstrarlegu pari

Sé hins vegar litið svo á að hver landshluti eigi aðeins rétt á opinberum útgjöldum í samræmi við skatttekjur sem þar eru innheimtar mætti til skýringar hugsa sér Norðausturkjördæmi sem sjálfstætt „Norðausturríki“. Þar byggju tæplega 40 þúsund manns, sem samsvarar um 80% af íbúafjölda Færeyja, á svæðinu frá Tröllaskaga austan Skagafjarðar að Hvalnesskriðum milli Djúpavogshrepps og sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Því ríki tilheyrðu auðlindir lands og sjávar norðaustan og austan, þar með taldar orkuauðlindir, fiskimið og hugsanlegar olíulindir, sem og vegakerfið, hafnir og núverandi fasteignir íslenska ríkisins á svæðinu. Allar aðrar eignir og skuldir íslenska ríkisins væru Norðausturríki hins vegar óviðkomandi.

Miðað við staðbundin útgjöld til opinberrar starfsemi og þjónustu, fjárfestingar í innviðum, bóta til einstaklinga og styrkja til svæða og atvinnugreina væri 914 m.kr. eða tveggja prósenta afgangur af rekstri þessa „ríkis“. Að meðtöldum óstaðsettum útgjöldum öðrum en vaxtagreiðslum væri fjárlagahalli þessa ríkis hins vegar -625 Mkr eða -1,2% af skatttekjum. Til samanburðar var halli af rekstri íslenska ríkisins skv. fjárlögum 2011 -7,9% eftir vaxtagreiðslur, eftir því sem fram kemur í skýrslunni.

Tilfærsla peninga heim

Á málþingi þar sem rannsóknin var kynnt kom fram að íbúar Norðausturkjördæmis mega vel við una þegar kemur að framlögum til trúmála og kirkjugarða hlutfallslega. Nokkuð vantar hins vegar upp á að íbúar fái það sem þeim ber í framlögum til heilbrigðismála. Skortir 415 milljónir á ári.

Framlög til menningar eru einnig langt undir því sem ætla mætti miðað við höfðatölu og landsmeðaltal. Að sögn dr. Þórodds Bjarnasonar er menningarstarfsemi sá liður sem er einna skakkastur. Hann ásamt fleirum á málþinginu tók þannig til orða að 19. aldar hugsun einkenndi þær betliferðir sem íbúar landsbyggðanna þyrftu að fara suður til Reykjavíkur og biðja fjárveitingarvaldið um pening til dæmis til menningarmála.

Flestir sem tjáðu sig á málþinginu voru sammála um að tilfærsla verkefna frá borg heim í hérað væri lausnin og var nokkuð talað fyrir þriðja stjórnsýslustiginu sem gæti bætt upp þennan halla. Ríflega helming eða hátt í 500 milljónir vantar upp á að íbúar kjördæmisins fái sitt í menningarmálum skv. landsmeðaltali.