Endurbætur við Goðafoss ganga hægar en til var ætlast

0
184

Helga A Erlingsdóttir verkefnisstjóri vegna endurbóta við Goðafoss og umhverfi hans, ritar frásögn af gangi mála við Goðafoss í Hlaupastelpunni sem kom út í dag. Frásögnina má lesa hér fyrir neðan.

Goðafoss - skipulag
Skipulagsmynd af Goðafoss-svæðinu

Eins og lesendum Hlaupastelpunnar er kunnugt um var ákveðið, að frumkvæði Þingeyjarsveitar, að hlúa að umhverfi Goðafoss, bæta aðgengi og landspjöll, með því að gera fleiri bílastæði, útsýnispalla, göngustíga – aðgengi fyrir alla. Þetta verkefni hófst 2013. Þingeyjarsveit fékk samþykki landeigenda til að deiliskipuleggja svæðið. Nú er því ferli loks að ljúka en það er ekki óalgengt að svona skipulagsferli taki langan tíma. Skipulagið var unnið með Vegagerðinni sem er að deiliskipuleggja svæðið litlu norðar vegna nýrrar brúar yfir Skjálfandafljót við Fosshól, sem er á áætlun 2017. Skipulagsvinnan fyrir Þingeyjarsveit er í höndum landslagsarkitekta hjá Landslagi ehf.

Ferðamálastofa hefur styrkt deiliskipulagsgerðina og einnig framkvæmdir. Þá var verkefninu veittur myndarlegur styrkur á vegum iðnaðarráðuneytisins, eða 15 milljónir króna árið 2014 sem sýnir áhuga þess. Þessi styrkur frá ráðuneytinu krafðist ekki mótframlags sveitarfélagsins en honum fylgdi sú kvöð að nýta skyldi hann árið 2014.
Styrkir frá Ferðamálastofu hafa krafist 50% mótframlags, sem eru miklir fjármunir og vart hægt að ætlast til svo mikils fjárframlags frá litlu sveitarfélagi. Þá hefur verkefnið fengið myndarlegan styrk frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, sem er afar mikils virði. Bæði Ferðamálastofa og ráðuneyti ferðamála hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og velvilja og komið og heimsótt staðinn. Er það mjög ánægjulegt á finna þennan áhuga og hvatningu frá þessum aðilum. Áhugi heimamanna og velvild landeigenda er einnig ómetanlegur.

Sumarið 2013 var farið í lagfæringar á merkingum göngustíga vestan fljóts og þeir betur afmarkaðir. Einnig voru sett upp viðvörunarmerki þar sem hætta er á hruni eða hálku. Í fyrrasumar – 2014 – varð að nýta styrkinn frá iðnaðarráðuneytinu. Ákveðið var að byggja upp gamla og illa farna stíga austan fljóts, gera útsýnispall og bílastæði þeim megin að fengnu framkvæmdaleyfi en umferð að fossinum að austan hefur verið mjög að aukast undanfarin ár. Auk þessa voru lagðar lyngþökur í sár í jarðveginum vestan fljóts og gerðar leiðbeinandi merkingar við bílastæðin. Fornminjaskráning var framkvæmd og gerðar rannsóknir á vatni. Í vor var bílastæðið malbikað en ekki stígarnir, því ákveðið var að bæta við þá og breyta lítilsháttar. Nú er enn verið að bíða eftir vinnuteikningum að útsýnispallinum en búið er að mæla fyrir honum og viðbótinni á stígunum.

Þetta gengur allt hægara en til var ætlast en það hefur líka orðið til þess að nýjar og betri útfærslur á útsýnisplani og stígum hafa komið fram. Mikilvægt er að vanda til verka og horfa til framtíðar í þessu verkefni. Stefnan er að byrja á framkvæmdum á næstunni þegar mesta sumarleyfistímanum lýkur og ferðafólki fækkar – en það hefur verið mjög mikil fólksmergð við Goðafoss flesta daga í sumar. Talað er um allt að 30% aukningu frá því í fyrra. Auk útsýnispalls og viðbótar göngustíga þarf að klæða kanta á stígum og bílaplani með lyngþökum og hraungrýti, handgera mjóan göngustíg frá Gömlu brúnni á aðalstíginn, gera tröppur og handrið og brú yfir Grófina sem rennur þvert á þennan mjóa göngustíg.

Ekki verður unnið neitt vestan Skjálfandafljóts í sumar nema e.t.v. lagðar fleiri þökur á gróðurlaus og illa farin svæði. En vonandi verður hægt að byrja á framkvæmdum þar næsta vor. Til stendur að gera ný bílastæði, nær þjóðvegi 1 og laga enn frekar göngustíga og gera útsýnispalla. Þá er nauðsynlegt að byggja snyrtingar við ný bílastæði en ekki fékkst lóð fyrir þær samþykktar á deiliskipulagið sem nú er í afgreiðslu. Mjög mikilvægt er að fjölga snyrtingum á svæðinu, beggja vegna fljótsins því þau sem til eru á svæðinu anna engan vegin öllum þessum fjölda fólks sem á svæðið kemur og því umgengnin á landinu við fossinn er vægast sagt slæm. Vinnuskólinn hefur farið nokkrar ferðir upp að fossi til að hreinsa. Mikið skárra ástand er að austanverðu enda þó nokkrar snyrtingar þar en þyrftu þó að vera miklu fleiri. Aðgengi að vatni beggja vegna fljótsins verður að bæta, það gæti orðið stórt verkefni.

Goðafoss og umhverfi hans er perla okkar sveitunganna og Íslendinga allra sem á skilið umhyggju og virðingu. Vissulega eigum við marga fallega staði í Þingeyjarsveit, en engan sem jafn margir heimsækja. Má nefna hér að flestir þeir sem koma á skemmtiferðaskipum til Akureyrar heimsækja fossinn og í sumar koma þangað 110-115 skemmtiferðaskip (í fyrra rúmlega 80) og sum þeirra gríðarlega stór og oft eru fleiri en eitt, jafnvel 4 við bryggju í einu. Fossinn er oftsinnis myndefni ljósmyndara sem og annarra ferðamanna enda margbreytilegt myndefni, eftir veðri og vatnsmagni – og alltaf er fossinn fallegur. Að staldra við hjá Goðafossi hefur áhrif á mann sama hversu oft sem maður kemur þangað. Ekki má heldur gleyma sögum og atburðum sem tengjast fossinum og nágrenni hans. Það er ótrúlegt hve margir erlendir ferðamenn þekkja til margra þessara sagna og heimsækja staðinn þeirra vegna.

Goðafoss og umhverfi hans hefur verið mér afar hjartfólginn staður og áhugamál að bæta umgengni og jarðrask við fossinn. Ég er ekki ein um þetta. Marga heimamenn og gesti, bæði íslenska og erlenda hef ég hitt við Goðafoss undanfarin ár sem dásama þennan stað.

Helga A. Erlingsdóttir, verkefnastjóri