En orðstír deyr aldregi

0
967

Fyrir mörgum árum síðan þegar ég var í menntaskóla skrifuðum við nokkur saman ritgerð um fíkniefnavandann. Við ræddum við ungan mann hjá Krísuvíkursamtökunum og hann sagði okkur eftirfarandi dæmisögu:

Munurinn á brennivíni og hassi er sá að þú heldur partý og þar er maður sem drekkur mjög mikið og er með læti og endar á því að brjóta rúðu í húsinu þínu. Það er líka maður í partýinu sem reykir hass og hann situr bara í stól og er rólegur og stilltur. Ekkert vesen.

En daginn eftir þegar sá fulli kemur í þynnkunni og borgar rúðuna þá situr hinn enn þá í stólnum.

Ásta Svavarsdóttir
Ásta Svavarsdóttir

Þessa sögu hef ég notað reglulega í forvarnarskyni í gegnum árin í samskiptum mínum við ungmennin og hún hefur yfirleitt skilað réttum viðbrögðum. Hins vegar brá svo við að síðast þegar ég sagði þessa sögu þá fékk ég önnur viðbrögð:

,,Váá, þvílíkur bjáni að fara aftur og borga rúðuna.”

Auðvitað hefði ég átt að stökkva upp, rífa í hár mitt og skegg og hrópa: ,,O, tempora! O, mores!” En ég gat það ekki vegna gáttunar. Ég er bara þakklát að kjálkinn á mér skyldi ekki brotna þegar hann datt í gólfið.

Svo kom á daginn, eins og oft vill verða, að börn og unglingar eru ekki alin upp í tómarúmi. Þau endurspegla samtíma sinn.

Ef við höldum okkur við húsið og partýið þá gerðist það á haustdögum 2008 þegar partýið stóð sem hæst að húsið var hreinlega jafnað við jörðu. Það ber enginn ábyrgð á því. Þessi sem kveikti í gardínunum er alveg saklaus. Þessi sem faldi slökkvitækið líka.

Það hefur engum dottið í hug að gera eitthvað bjánalegt eins og að fara og borga eina rúðu. Glætan…

Í rúm 20 ár fannst mér og æsku landsins þetta svo eðlilegt og sjálfsagt að ég hugsaði ekki einu sinni um það. En af hverju fór ímyndaði vinur okkar og borgaði rúðuna?

Kannski vegna þess að það vissu allir að það var hann sem braut rúðuna. Og af því að allir vissu það þá væri frekat lúalegt af honum að reyna að koma sér hjá því að borga.  En kannski fyrst og fremst vegna þess að hann sjálfur vissi upp á sig skömmina og vildi, mannorðs síns vegna, bæta fyrir. Það væri það siðferðilega rétta.

En hvað er þetta fyrirbæri mannorð? Er það bara úrelt og óskiljanlegt hugtak?

 

Spegill, spegill, herm þú mér…

Eitt sinn var sagt að einstaklingurinn speglaði sig í augum annarra, þ.e. að það sem hann sæi í augum annarra væri sjálfsmynd hans.

Ein af perlum bókmenntanna okkar eru Hávamál.  Frægasta vísa Hávamála er svohljóðandi:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

 

Vísan er um orðstír, eða mannorð, (skv. Samheitaorðabókinni er þetta sami hluturinn) og augljóst að orðstírinn skipti máli. En einstaklingurinn verður að ,,geta sér” góðan orðstír, þ.e. aðrir verða að viðurkenna hann, og svo lifir orðstírinn auðvitað með öðru fólki.  Forfeður okkar virðast því hafa lifað eftir speglakenningunni.

Nú eru mannorð og siðferðisvitund tvíburasystkin. En forfeður okkar höfðu allt aðrar hugmyndir um siðferði heldur en við. Segir einnig:

Gáttir allar

áður gangi fram

um skoðast skyli

um skyggnast skyli,

því að óvíst er að vita

hvar óvinir

sitja á fleti fyrir

 

Hávamál eru heiðinn siðferðisboðskapur. Hái er annað nafn á Óðni, konungi goðanna í Valhöll. Hann er klækjarefur sem vílar ekki fyrir sér að ljúga, svíkja og pretta. Það er því ljóst að það sem taldist ,,gott” og eftirsóknarvert á þessum tíma samrýmist ekki alveg hugmyndum okkar nú. (Forfeður okkar myndu eflaust ekkert skilja í því af hverju okkur er svona í nöp við útrásarvíkingana.)

Sá sem gat sér bestan orðstír var sá sem lét ekki vaða ofan í sig, svaraði fyrir sig jafnvel með ofbeldi sbr. allar Íslendingasögurnar og hafði nokkur morð á samviskunni. En, eins og áður sagði, þá skipti öllu máli að annað fólk sæi hetjuskapinn og viðurkenndi hann. Enda erum við enn að dæma þetta fólk, næstum þúsund árum seinna.

,,Já, hann Gunnar var nú garpur. En Njáll var alltaf helvítis kelling.”

 

Stigavörðurinn.

Svo skiptum við um trú og allt í einu skipti ekki bara álit annarra máli. Nei, hið alsjáandi auga Guðs fór að fylgjast með okkur. Kosturinn við þetta fyrirkomulag var að nú skipti ekki öllu máli að sýnast fyrir öðru fólki og fá viðurkenningu þess. Það var hægt að vera góð og almennileg manneskja í laumi líka. Guð sá allt og taldi stigin samviskusamlega.

Siðferðið var líka gjörbreytt. Nú átti fólk ef það var móðgað ekki að höggva mann og annan heldur snúa fram hinum vanganum og fyrirgefa. Og til að kóróna ósköpin: Elska náungann eins og sjálfan sig. Nei, hættu nú alveg…

Það eru mikil umskipti frá því að ganga varlega inn um allar dyr af ótta við launsátur í að elska náungann. Enda náðist þetta aldrei almennilega.

Dag einn var Guð úrskurðaður látinn, Nietzsche gaf út vottorðið. Nú voru góð ráð dýr því þegar Guð er andaður þá er allt leyfilegt.

Skyndilega stóð mannkynið uppi með sjálft sig. Siðferðisvitundin var okkar og einskis annars. Aftur erum við komin í þá stöðu að það er annað fólk sem dæmir okkur, það er enginn stigavörður uppi á himnum sem heldur öllu til haga.

Ef ég kemst upp með það þá geri ég það að sjálfsögðu. Og ef einhver gagnrýnir þá er hann bara öfundsjúkur smáborgari.

Það er auðvelt að vera uppfullur af siðferði á góðum tímum, þegar allir hafa nóg að bíta og brenna. Það er á tímum eins og nú sem reynir á. Komum við jafnt fram við alla eða mismunum við fólki? Er mannskepnan alltaf söm við sig, otar sínum tota og hyglir sér og sínum? Þegar valið stendur um mannorðið eða að fá að éta, er það eitthvert val?

Ef kreppan er siðferðispróf þá erum við svo sannarlega ekki að standast það með bravúr.

Athugasemdakerfi netmiðlanna eru eins og opnar rotþrær. Fólk vílar ekki fyrir sér að kalla annað fólk öllum illum nöfnum og væna það um hina verstu glæpi. Landráðamaður og landsölumenn eru allt í einu orðin hin hversdagslegustu brigslyrði.

Fólk er sent á atvinnuleysisskrá með órökstuddum dylgjum um vanhæfi. Sumir eru lögsóttir í leiðinni.

Það er kannski ekki skrítið að fólki sé sama um mannorð sitt þegar allir aðrir telja að mannorð þess sé dyramotta fyrir skítugu skóna sína. Af hverju ætti einhverjum að vera annt um mannorð sitt þegar annað fólk virðist ekki einu sinni skilja hvað það er?

Svo ölum við upp ungmenni og skiljum ekkert í því að þau þekki ekki hugtök eins og mannorð og æra. Og skilja að sjálfsögðu ekki hvað í þeim felst.

Skýringin er mjög einföld. Við höfum aldrei kennt þeim það.

 

Ásta Svavarsdóttir

Hálsi.