Elska – Ástarsögur Norðlendinga sýnd á Breiðumýri á sunnudagskvöld

Stækkað og breytt handrit

0
259

Fyrir þremur árum síðan sýndi leikkonan Jenný Lára Arnórsdóttir einleikinn Elska – ástarsögur Þingeyinga á Breiðumýri. Þar velti hún fyrir sér ástinni og hvað það er sem lætur ástarsambönd endast og virka. Handritið bjó hún til upp úr viðtölum sem hún tók við nokkur Þingeysk pör.

 

 

Einleikurinn gekk vel og var sýndur víða í Þingeyjarsýslum, á leiklistarhátíðinni Act Alone á Suðureyri og á hinum rómaða Cafe Rosenberg í Reykjavík. Allstaðar fékk sýningin góðar viðtökur og var Jenný hvött til að halda áfram að þróa verkið.

Tæpum þremur árum seinna fékk Jenný til liðs við sig leikstjórann Agnesi Wild, leikarann og tónlistarmanninn Jóhann Axel Eyjólfsson og leikmyndahönnuðinn Evu Björgu Harðardóttur til þess að vinna verkið áfram. Ákveðið var að finna fleiri pör til að ræða við, stækka og breyta handritinu aðeins og gera tveggja leikara sýningu úr verkinu. Úr varð Elska – ástarsögur Norðlendinga, sem var sýnd í nóvember í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Sýningin fékk mikið lof áhorfenda og gekk það vel að ákveðið var að hafa aukasýningu í Samkomuhúsinu á Akureyri núna í mars.

En hópurinn vildi ekki láta þar við sitja. Þau vildu að fleiri fengju að njóta. Því var ákveðið að fara í smá leikferð með sýninguna og mun það ferðalag hefjast á Breiðumýri sunnudagskvöldið 28. mars kl. 20:00. Miðaverði er stillt í hóf, einungis 2.800 krónur, og er verkið klukkustund að lengd. Hægt er að panta miða í síma 847-6921.

Hvort sem fólk sá einleikinn eða ekki ætti þetta að verða skemmtileg kvöldstund þar sem ástin svífur yfir vötnum. Þeir sem sáu einleikinn fá þarna sjaldgæft tækifæri til að sjá hvernig leikverk getur þróast með tímanum. Hinir fá að kynnast verkinu í fyrsta sinn. Eitt er víst að allir munu yfirgefa Breiðumýri í lok sýningar með yl í hjarta og bros á vör.