UMF Efling og félag Eldri borgara hafa undanfarnar þrjár vikur boðið upp á vatnsleikfimi fyrir eldri borgara í Þingeyjarsveit og fer leikfimin frá í sundlauginni á Laugum. Ragna Baldvinsdóttir hefur staðið fyrir vatnsþjálfuninni/leikfiminni, tvisvar í viku og hefur að meðaltali verið að mæta um 10 manns í hvert sinn. Að sögn Rögnu eru eldri borgararnir yfir sig ánægðir með þetta. Stefnt er að því að halda áfram með vatnsleikfimina eftir páska.

Jón Friðrik Benónýsson átti hugmyndina að vatnsleikfiminni og skellti henni í framkvæmd en Ragna hefur séð um þjálfunina sem hefur nýttst henni vel þar sem hún er í vettvangsnámi frá íþróttakennaraháskólanum á Laugarvatni. Jón Friðrik mun sjá um leikfimina eftir páska þar sem Ragna þarf að fara aftur í skólann, en þar er hún að læra íþrótta- og heilsufræði og er að útskrifast í vor. Ragna hefur verið að læra meðal annars um þjálfun í vatni og einnig þjálfun fyrir eldri aldurshópa og því var tilvalið að blanda þessu saman.
“Markmiðið var fyrst og fremst það að koma fólki í sveitinni af stað, mæta í sund og nýta þessa frábæru laug sem við eigum. Þetta er ekki bara góð þjálfun heldur líka félagsskapur og þarna mætir fólk á lokunartíma sundlaugarinnar. Við höfum sundlaugina alveg útaf fyrir okkur og eftir æfinguna er farið í pottinn og spjallað. Við erum virkilega ánægð með hvernig hefur tekist til og vonum að þetta fólk og jafnvel fleiri muni halda áfram að mæta í sundlaugina og æfa sig” sagði Ragna Baldvinsdóttir í spjalli við 641.is.