Ekki búið að taka ákvarðanir um verð fyrir sauðfjárafurðir hjá Norðlenska

Stefna að því að greiða innleggið að fullu í sláturtíðinni

0
434

“Það hafa ekki verið teknar ákvarðanir um verð fyrir sauðfjárafurðir í haust hjá Norðlenska, en ljóst er að verð mun lækka frá því í sláturtíðinni 2016. Verðskrá fyrir sauðfjárafurðir verður væntalega gefin út um miðjan ágúst”, sagði Ágúst Torfi Hauksson framkvæmdastjóri Norðlenska í spjalli við 641.is í dag.

“Ytri aðstæður við sölu á lambakjöti hafa verið óhagstæðar og verðið fyrir útflutt kjöt hrekkur engan vegin fyrir kostnaði. Verð innanlands hefur líka gefið eftir, enda hefur offramboð neikvæð áhrif á innanlandsverð”, sagði Ágúst Torfi.

Forsvarsmenn Kjarnafæðis og SAH-afurða kynntu hugmyndir um verðlagningu dilkakjöts og greiðslufyrirkomulag haustsins til bænda í vikunni og kváðust geta greitt sama verð og í fyrra en það gildir einungis um 65% af innlegginu. Greiðslan fyrir þessi 65% yrði skipt í fernt og greiðslutímabilið nær yfir 9 mánuði (15. október – 15. júní).

641.is spurði Ágúst Torfa um greiðslufyrirkomulagið hjá Norðlenska í haust og hvort hugmyndir væru um breytingar í þessa átt hjá Norðlenska. Ágúst Torfi sagði að Norðlenska stefndi að því að greiða innleggjendum innleggið að fullu í sláturtíðinni nú í haust.

Slátrun hefst 31. ágúst hjá Norðlenska á Húsavík en byrjað verður seinna á Höfn.