Ekkert hótel í Stórutjarnaskóla í sumar

0
311

Undanfarin fjörtíu ár hefur verið rekið Edduhótel í Stórutjarnaskóla að sumarlagi. Hins vegar er þessu samstarfi nú lokið og ekkert hótel rekið í skólanum í sumar.

Edduhótelin voru upphaflega í eigu Ferðaskrifstofu ríkisins og hæg heimatökin að nýta tóma heimavistarskóla út um landið sem ríkið átti líka.

Tímarnir breytast og nú er ferðamannatíminn mun lengri en áður og sumarfrí skólanna styttri. Ferðaskrifstofa ríkisins löngu hætt starfi og Edduhótelin eru nú í eigu Icelandair hotels. Skv. Tryggva Guðmundssyni hjá Icelandair hotels leggur Icelandair hotels meiri áherslu á uppbyggingu hótela í hærri gæðaflokki. Einungis eru nú rekin þrjú hótel undir merki Eddu.

Viðmælandi hjá skrifstofu Þingeyjarsveitar taldi tap leigutekna fyrir skólann ekki mikið tap í hinu stóra samhengi, leigutekjurnar voru á bilinu 5-10 milljónir á meðan rekstur skólans er á milli 200 og 250 milljónir árlega. Mesti missirinn sé að sumarstörfunum sem ungt fólk í sveitarfélaginu gat fengið hjá hótelinu.

Ólafur Arngrímsson, skólastjóri hjá Stórutjarnaskóla er sammála því að missirinn sé ekki mikill í hinu stóra samhengi. Hins vegar var ákvæði inni í samningi skólans og Edduhótela frá því að skólinn var rekinn í samlagi þriggja hreppa að leigan gekk til skólans og átti að notast til viðhalds húsnæðinu, þ.e. það sem nýttist bæði skóla og hóteli.

Undanfarin tvö ár datt niður aðsókn að Hótel Eddu í Stórutjarnaskóla og spilar eflaust margt þar inn í. Eins og t.d. meira framboð af ódýrri gistingu í Þingeyjarsveit. Var þessi ákvörðun tekin áður en Covid-19 gekk yfir heimsbyggðina.

Að sögn Ólafs er það að mörgu leyti þægilegra að hafa ekki hótel í skólanum að sumarlagi. Starfsmenn og kennarar þurftu ekki að tæma skólann og ganga frá öllu í geymslur. Þá er líka unnt að fara í viðameira viðhald og er nú verið að gera upp eldhúsið. Hins vegar setur skólinn sig ekki upp á móti frekara hótelsamstarfi í framtíðinni.