Eitt samfélag – Einn skóli

0
105

Kæru sveitungar, mig langar til að fara hér nokkrum orðum um skólamál í Þingeyjarsveit, sveitinni okkar allra.

Nú rekur Þingeyjarsveit 2 grunnskóla í sveitarfélaginu, þeir eru starfræktir á þremur stöðum, og á öllum þremur stöðunum eru reknar leikskóladeildir og tónlistardeildir innan grunnskólanna.

X14

Þingeyjarskóli varð til haustið 2012 með sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í eina stofnun. Mér virðist sú sameining hafa verið unnin í nokkru fljótræði og án vel skilgreindra markmiða um hvað nákvæmlega skyldi nást fram með þeirri sameiningu.

 

Sameining þessi var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 20. október 2011. Á auglýstri dagskrá er enginn dagskrárliður sem fjallar um sameiningu skóla, þar er hins vegar tekin fyrir, samkvæmt dagskrá, fundargerð fræðslunefndar, þar sem :

 „Fræðslunefnd leggur til við sveitarstjórn að hún láti bera saman kostnað við rekstur 3ja skóla eins og nú er annars vegar og hins vegar kostnað við rekstur tveggja skóla þ.e. Stórutjarnaskóla, og Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla sameinaða að Hafralæk annars vegar og hins vegar Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla sameinaða að Laugum.“

Afgreiðsla sveitarstjórnar á þessari tillögu er svohljóðandi:

„Sveitarstjórn ákveður að verða ekki við tilmælum um útreikning. Sveitarstjórn samþykkir að Hafralækjarskóli og Litlulaugaskóli verði sameinaðir í eina stofnun með tveimur starfsstöðvum. Þessi breyting taki gildi frá og með 1/8 2012. Skipaður verður starfshópur til að undirbúa breytinguna. Stórutjarnaskóli starfi áfram sem sérstök stofnun. Samþykkt samhljóða.“

Búið og gert, ákvörðun sem tekin er með þessum hætti og ekki auglýst í dagskrá fundar virðist gerð í fljótræði og má efast um réttmæti hennar.

Skemmst er frá að segja að þessi sameining hefur valdið óöryggi og talsverðri ólgu meðal starfsfólks og nemenda þeirra skóla sem sameinaðir voru. Ráðinn var skólastjóri sem áður hafði starfað við annan þennan skóla en ekki auglýst eftir nýjum yfirmanni. Starfsfólk skólanna, foreldrar og nemendur hafa ekki vissu fyrir því hvernig skólamálum verði hagað hér í sveit til lengri tíma.

Þetta er vont, það er vont að hafa ekki góðan undirbúning, skýr markmið og stefnu í svo viðkvæmum málaflokki.

Við sem stöndum að framboðinu Sveitungar teljum að fyrsta skref sem þurfi að taka í skólamálum sé að sameina alla grunnskóla sveitarfélagsins í eina stofnun með einum yfirmanni, sem allra fyrst.

Þannig má ná fram samræmi í rekstri, samnýtingu starfsfólks, meiri faglegum styrk með samráði og samstarfi. Vel mætti hugsa sér að fagmenn innan skólanna gætu með námskeiðum áunnið sér réttindi til að sinna þeirri sérfræðiþjónustu sem nú er keypt utan frá Ennfremur er þetta hugsanlega leið til þess að ná fram sameiginlegum markmiðum allra íbúa sveitarfélagsins og sameiginlegri ábyrgð okkar  allra á þessum dýra, mikilvæga málaflokki.

Svo virðist sem margt bendi til þess að núverandi sveitarstjórn hyggist leggja af grunnskóla á Laugum. Atkvæðagreiðsla sú sem nú er boðuð er ekki til þess fallin að sætta sjónarmið, hún ýtir fremur undir togstreitu og þar að auki er það niðurstaða úttekta á skólamálum hér í sveit að enginn vill missa skólastarf úr sínum sveitarhluta, þetta vitum við öll. Það er ekki góð stjórnsýsla að okkar mati að ætlast til að hluti íbúa sveitarfélags taki ákvörðun um framtíðarskipan svo viðamikils málaflokks, þegar kemur að slíkri ákvörðun hljóta allir að bera sameiginlega ábyrgð, annað teljum við ekki lýðræðisleg vinnubrögð.

Sú hugmynd að loka grunnskóla á Laugum tel ég afar varhugaverða. Þar er unnt að stunda nám frá leikskólaaldri og fram á háskólastig, þar er þéttbýlismyndun sem hefur talsverða þjónustu í boði og þar er nú fjölgun ungra barnafjölskyldna. Ungt barnafólk setur það fyrir sig að flytja í lítið þéttbýli sé þar ekki starfandi skóli.

Ennfremur tel ég það skyldu okkar að styðja við einn stærsta vinnustað sveitarfélagsins  sem er Framhaldsskólinn á Laugum, eitt af því sem styrkir stjórnvöld í því að reka áfram lítinn framhaldsskóla í dreifbýli er nýting heimamanna á skólanum, Reykdælingar hafa verið duglegir að nota skólann og er það meðal annars vegna samvinnu skólanna, þar hafa grunnskólanemendur stundað íþróttir, tekið námsáfanga meðan þeir eru enn í grunnskóla og ekki síst kynnst skólanum og félagslífinu þar.

Margt fleira mætti rita hér um skólamál en ég læt staðar numið að sinni.

Munið bara að nýta kosningaréttinn ykkar, hann er dýrmætur.

Sigurlaug Svavarsdóttir Brún (er á lista Sveitunga til sveitarstjórnarkosninga )