Eitt leiðir af öðru

0
101

MARSKONAR MENNTUN, REYNSLA OG LÖNG ÆVI
Laugardaginn 10. nóvember var opnuð, á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar, í Listasafninu á Akureyri, sýning á grafík- og bókverkum Rögnu Hermannsdóttur og stendur sýningin til 15. desember. Texta um sýninguna eftir Harald Inga Haraldsson má nálgast á heimasíðu Sjónlistamiðstöðvarinnar, sjonlist.is, sem og á sýningunni sjálfri, en Haraldur átti veg og vanda að henni. Hér verður leitast við að endurtaka ekki það sem þar stendur heldur fyrst og fremst fjalla um sýninguna eins og hún birtist áhorfandanum í Listasafninu.

Ragna Hermannsdóttir á sýningu.

 

Ragna fæddist í Bárðardal 1924 og bjó þar til unglingsáranna. Hún lést í Reykjavík 2011 eftir viðburðaríka ævi sem hægt er að skynja í myndverkum hennar sem til sýnis eru í Listasafninu.

 

 

 

 

TRÉRISTUR, TEIKNINGAR OG BÓKVERK
Í austur- og miðsal safnsins eru tréristur til sýnis sem flestar eða allar eru unnar í Amsterdam á árunum 1985-87. Einnig eru þar teikningar sem Ragna vann í Reykjavík á síðustu árum ævinnar. Í austursal er 6 m langur, teiknaður refill þar sem kunnuglegum formum úr grafíkmyndunum bregður fyrir ásamt ýmsum táknum sem tjá einhverskonar myndrænt ljóð. Í vestursal hefur fjölmörgum bókverkum Rögnu verið komið fyrir undir gleri en á veggjunum ofan við hanga ljósrit af nokkrum síðum bókanna, til að gefa sýnishorn af fjölbreytileika þeirra og innihaldi. Verkin ánafnaði Ragna Safnahúsinu á Húsavík og eru þau öll fengin að láni þaðan. Í klefa í vestursal er hægt að heyra Jón Aðalstein, bróðir Rögnu og Kristínu Ketilsdóttur lesa hluta af BA-ritgerð í heimspeki sem Ragna vann undir leiðsögn Páls Skúlasonar. Ritgerðin fjallar um heimskuna og hið illa.
Sýningin er hugsuð sem heildstæð sýning á bestu verkum Rögnu, en ekki sem hefðbundin yfirlitssýning. Dr. Hlynur Helgason listheimspekingur fjallaði um sýninguna í RÚV-þættinum Víðsjá, þann 14. nóvember og fór hann mörgum fögrum orðum um listakonuna, vinnu hennar og sýninguna. Hlynur hvaðst þó sakna þess að sjá engin ljósmyndaverk, en Ragna gaf m.a. út ljosmyndabók um það leyti sem hún var að byrja í bókagerðinni. Einnig væri áhugavert að fá einhverntíma að sjá málverk Rögnu sem hún vann í listamannaveri Donalds Judd í Marfa, Texas, en þar dvaldi hún í lok níunda áratugarins. Verkin sýndi hún í Norræna húsinu 1990. Það er þó óumdeilanlegt að styrkur Rögnu og kraftur er mestur í tréristunum og bókverkunum.

PERSÓNULEG LITANOTKUN OG ANDSTÆÐUR Í FORMUM
Notkun Rögnu á litum er persónuleg og fersk. Þegar að formnotkun kemur blandar hún saman organískum og geometrískum formum á áhugaverðan hátt. Skær birta og myrkur takast á í nær öllum hennar verkum. Hún notar mikið ljóðrænar fígúrur og jafnvel dýr sem oftast tákna annað hvort einhverjar dýrslegar hvatir okkar mannanna eða sýnir sterk tengsl hennar við náttúruna. Annað áberandi þema í verkum Rögnu eru jurtir en Ragna nam ung garðyrkjufræði og rak lengi gróðrastöð í Hveragerði. Því er ekki að undra að jurtir séu henni eðlilegur tjáningamiðill en ástand þeirra getur líka gefið til kynna visst tilfinningalegt ástand eins og í myndlíkingum, að vera í blóma lífsins eða að vera að visna auk þess sem munur er á rótföstum jurtum og afskornum. Í tréristunum takast annars vegar á þessi náttúrulegu, ljóðrænu form og hins vegar hrein grunnform (hringur, kassi og þríhyrningur) en listastefnan Neo Geo var að ryðja sér til rúms á þessum tíma sem tískubylgja, upp úr 1986. Þessi samsetning forma er áhugaverð hjá Rögnu og blandast vel saman við það persónulega annars vegar og það ópersónulega hins vegar.

 


ÞEKKINGARLEIT
Ragna var alla tíð fróðleiksfús og fljót að tileinka sér þekkingu bæði bóklega og rafrænt. Hún nam ljósmyndun í bandarískum bréfaskóla samhliða garðyrkjustarfinu og rak lengi ljósmyndastofu í Hveragerði. Ljósmyndasafn sitt ánafnaði hún Listasafni Árnesinga. Ljósmyndin var því sá grunnur sem hún byggði á þegar hún hóf myndlistarnámið í Nýlistadeildinni margrómuðu, í Myndlista- og handíðaskóla Íslands eftir tilheyrandi grunnnám. Síðar notaði hún ljósmyndir í silkiþrykksmyndir sínar og hluta bókverkanna. Eftir að hún hafði lokið framhaldsnámi við Ríkisakademíuna í Amsterdam leigði hún sér vinnustofu þar og vann í eitt ár. Einnig vann hún í Berlín í nokkra mánuði áður en hún flutti endanlega heim til Reykjavíkur, 1988. Skömmu seinna hóf hún nám í Háskóla Íslands og lauk BA-próf í heimspeki.
Mikið var jafnan gert úr aldri Rögnu í viðtölum og þótti það gott til eftirbreytni að fara sextug í framhaldsnám til Amsterdam og rúmlega sjötug að taka BA-próf. Í dag þykir það ekkert tiltökumál að fara í háskólanám á hvað aldri sem er, a.m.k. ekki á Íslandi. Vissulega eru aldurstakmörk við ríkisreknar listaakademíur bæði í Þýskalandi og Frakklandi en slíkt tíðkast ekki í Skandinavíu og víðar. Jafnhliða heimspekináminu var Ragna fljót að læra á tölvu og nýtti sér margskonar myndvinnsluforrit í Mac tölvunni sinni til að hanna lítil bókahefti. Hver bók var einungis þrykkt í örfáum eintökum, þær gaf hún einstaka vinum sínum, vandamönnum og Listaháskólanum. Bækurnar voru ekki falar fyrir peninga og voru sjaldan sýnilegar nema á stöku sýningu hjá Rögnu. Framan af voru bækurnar unnar út frá ljósmyndaseríum, síðar notaði hún mismunandi grafíktækni og síðast tölvuvinnslu við vinnsluna á bókverkunum sem bæði voru í máli og myndum. Nokkrar bókanna innihalda eingöngu ljóð eða örsögur, oftast með heimspekilegu ívafi. Hún fór á námskeið í skapandi skrifum hjá HÍ, hjá enskumælandi kennara og oft notaði hún ensku í bland við íslensku. Textar og textabrot Rögnu eru áhugaverðir og til þess fallnir að rannsaka nánar.

BÆKUR Á ENSKU OG ÍSLENSKU
Í bókinni Blindness frá 1999 er textinn á ensku og ljósrit úr þeirri bók hanga á vegg í vestursal. Þar er eftirfarandi texti:
Ears and hands of the blind
listen and fumble,
like mice in a dark hole.
Í bókinni er þessi hugrenning sett fram myndrænt, á grátbroslegan hátt. Síðar endurgerir hún bókina (2005), notar nýjar myndir og þýðir textann á íslensku með titlinum Blinda.
Eyru og hendur hins blinda
hlusta og fálma
eins og mýs í myrkri holu.
Önnur bók frá 2006 fjallar einnig um sjónina, sem var Rögnu hugleikin eins og mörgum eldri myndlistarmönnum sem farnir eru að missa sjón. Árið 2006 gerði hún svo bókina Auga.

MYNDRÆNAR, HEIMSPEKILEGAR VANGAVELTUR
Eins og áður segir koma jurtir oft við sögu í verkum Rögnu. Ein bók hennar frá 1999 ber titilinn Garðurinn og önnur yngri nefnist Gular rósir en þar veltir hún fyrir sér forgengileika lífsins. Ljósrit úr þessari bók gefur að líta á vegg í vestursal. Sú þriðja ber nafnið Dauðinn í frumskóginum og er um skild málefni. Enn ein, unnin á námsárunum í Amsterdam, heitir Blóð í grasi, en þar gefur að líta bæði dýr og jurtir auk mannshandarinnar sem oft kemur fyrir í myndum Rögnu. Í textum sínum varpar Ragna oft fram heimspekilegum spurningum s.s. spurningum sem við veltum fyrir okkur í æsku en gleymdum svo með hækkandi aldri, kannski af því að okkur líkaði ekki endilega við svörin, eða þá að við teljum okkur of vitur. Heimska og viska mannanna er akkúrat það sem Ragna nær að fanga á svo næman og oft á tíðum skoplegan hátt. Undir glerinu gefur að líta, í einni bókinni, ljósmynd af hugsandi barni. Textinn undir myndinni er spurning án spurningamerkis: Hvert fer sólin um nætur. Ljósmyndin er fullgillt spurningarmerki. Önnur setning, í ljóði, minnir á það sama: Hvar er Ljósafjall þegar það er hulið þoku?

TUNGUMÁL TILFINNINGANNA FRAMSETT Í MYNDUM
Ragna vinnur með hugtök og orð tengdum tilfinningum og mannlegum kenndum í bland við myndirnar. Orð eins og skelfing, tortryggni, launráð og dirfska. Ein bókin heitir Tvöfeldni önnur Draumar. Ást, svik og einmanaleiki eru oft tjáð í mynd eða texta. Ljóðabókin Haustþoka endurspeglar þetta og einnig næma tilfinningu fyrir náttúrunni, himingeimnum, veðurfarinu og gróðrinum, sem allt er til staðar í myndmáli hennar. Hugsanlega eru þarna á ferð áhrif frá uppvaxtarárunum þar sem hún var í nánum tengslum við veður og vinda, dýr og jurtir. Þá hafði veður mun meiri áhrif á daglegt líf en í þaulskipulögðu borgarsamfélaginu með sínar traustu almenningssamgöngur. Í sveitinni var ekki sú ljósmengun sem borgarbúinn býr við og því höfðu himintunglin mun stærra hlutverk við að lýsa upp kvöld og nætur. Einhver óræð tilfinning fyrir himingeimnum og hinu óendanlega rými alheimsins virðist henni hugleikin og hafði hún oft orð á því hve magnað það var að vera í Marfa í Texas því þar er öll ljósmengun bönnuð vegna stjörnuskoðunarstöðvar sem staðsett er þar.
Eftirfarandi tilvitnun, úr blaðaviðtali, lýsir sköpunarferlinu hjá Rögnu vel: ,,Ég vinn ekki útfrá neinum ákveðnum hugmyndum. Ég sest bara niður og byrja á verki og myndin kemur, vex og þróast af sjálfu sér. Ég læt myndina koma, vaxa og þróast eins og blóm. Eitt leiðir af öðru”.

Pálína Guðmundsdóttir.