Eitt dýrasta naut landsins keypt í Árbót

Rúm 500 kíló á fæti 12 mánaða gamall

0
803

Eitt dýrasta naut landsins var í byrjun september flutt frá Stóra-Ármóti á suðurlandi norður í Þingeyjarsýslu þar sem það verður notað til kynbóta á nautgriparæktarbúinu Árbót í Aðaldal. Naut þetta er hreinræktaður Angus gripur og er einn kálfunum sem komu í heiminn úr fósturvísum sem fluttir voru inn frá Noregi 2017. Fósturvísarnir voru settar í íslenskar kýr á tilraunabúinu á Stóra Ármóti á suðurlandi.

Nautið heitir Bætir og er hann fæddur í september 2018. Hann var 516 kíló á fæti þegar hann var fluttur í Árbót þá árs gamall, en jafnaldrar hans af íslensku kyni er oftast ekki nema um helmingurinn af þeirri vikt.

Bætir er glæsilegur á velli. Mynd: Viðar Hákonarson

Búið er að taka sæði úr þessum fimm nautum og geta þeir bændur sem vilja sætt sínar holdakýr með því sæði vilji þeir auka og bæta nautakjötsframleiðslu á sínum búum. Þessir Angus gripir eru þó fyrst og fremst hugsaðir til kynbóta á holdagripum á nautakjötsframleiðslubúum, en hægt að nota á íslenskar kýr líka.

Aðeins 5 svona naut á landinu

Þegar sæðisttöku er lokið úr íslenskum nautum er þeim alltaf fargað en þar sem þessir Angus gripir eru miklir kynbótagripir kom ekki ti greina að fara þá leið. Því var haldið sérstakt uppboð á nautunum fimm því vitað var að eftirspurnin væri meiri en framboðið. Nautin fimm voru því boðin upp og keypti Árbótarbúið eitt af þessum nautum eins og áður segir. Hin fjögur voru keypt á bæi á suðurlandi sem gerir Bætir eina nautið utan suðurlands.

Viðar Hákonarson bóndi í Árbót sagði í spjalli við 641.is í dag að hann væri mjög ánægður með þessi kaup en vildi ekki gefa upp kauðverðið. Hann staðfesti þó að það væri það hátt að Bætir væri nokkuð örugglega eitt af 5 dýrustu nautum landsins í dag.

“Ég lít á þetta sem fjárfestingu til framtíðar, enda keypti ég sérstaka tryggingu fyrir hann áður en ég flutti hann heim”, sagði Viðar við 641.is. Viðar er þegar búinn að nota hann á sínar kýr en afraksturinn kemur ekki í ljós fyrr en á næstu árum.

Bætir: Mynd: Viðar Hákonarson