Ég, umhverfið og Guð.

0
86

Fréttatilkynning:

Grenivík

Grenivík.

Helgina 7.-9. febrúar verður haldið æskulýðsmót á Grenivík fyrir ungmenni í 8.-10. bekk á Norður-og Austurlandi undir yfirskriftinni „Ég, umhverfið og Guð.“

Mótið hefst kl. 18.00 föstudaginn 7. febrúar og endar með æskulýðsguðsþjónustu í Grenivíkurkirkju kl. 11.00 sunnudaginn 9. febrúar og er guðsþjónustan sú öllum opin. Á mótinu verður bæði fræðsla og skemmtun og sömuleiðis hin annálaða hæfileikakeppni HÆNA (hæfileikakeppni Norður og Austurlands).

Gist verður í Grenivíkurskóla og ófáir fullorðnir leiðtogar munu halda utan um þetta æskulýðsmót. Undanfarin ár hafa þessi mót verið haldin við góðan orðstír víða á Norður-og Austurlandi og á bilinu 90-130 ungmenni hafa tekið þátt.

Grenvíkingar ætla að taka höfðinglega á móti gestum, en þarna við hafið og undir Kaldbaknum má una vel hag sínum í heilnæmu andrúmslofti og samfélagi. Staðarmenn sjá um fóðrið og þá ætlar björgunarsveitin Ægir t.a.m. að bjóða upp á spennandi fræðslu. Megi algóður Guð blessa þetta æskulýðsmót og alla sem það sækja!

Bolli Pétur Bollason