Ég á líf

0
119

Um 80 ungmenni  og 20 æskulýðsleiðtogar á Norður og Austurlandi áttu saman líf, þ.e. samfélag í trú og gleði, á Reyðarfirði helgina 8.-10. febrúar. Þarna var um að ræða æskulýðsmót á vegum Þjóðkirkjunnar og samstarf norðlenskra æskulýðsfélaga við æskulýðsfélög á Austurlandi, samstarf sem hefur sömuleiðis átt sér líf í fáein ár með vænlegum árangri.

Bolli Pétur Bollason
Bolli Pétur Bollason

Reyðfirðingar sem og Eskfirðingar tóku vel á móti hópnum og bæði er það fróðlegt fyrir ungmennin að sjá og kynnast öðrum byggðarlögum og að sama skapi gott fyrir byggðarlögin að fá svona hressan og skapandi hóp til sín.  Það eitt og sér er öflugur lærdómur í bland við allt það er fer fram á æskulýðsmóti sem þessu.

 

Ég segi það fyrir mig að það verður með aldrinum æ skemmtilegra að fylgjast með æskulýðnum og sjá og heyra hvað hann er að velta fyrir sér og hugsa. Ég tala nú ekki um að verða vitni að hæfileikum hans en m.a. er svokölluð Hæfileikakeppni æskulýðsfélaga á Norður og Austurlandi (HÆNA) haldin á þessum mótum.

Hress ungmenni
Hress ungmenni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrátt fyrir að tölvur á tölvuöld fangi athygli unga fólksins ósjaldan, þá liggur það fyrir að þegar það fær hollan og góðan vettvang til að skapa og hugsa verða tölvurnar, eins lærdómsríkar og þær nú geta verið, að aukaatriði og að mestu nýttar í þágu þeirra verkefna, sem mótið býður upp á.

Í ungu fólki býr gríðarlegur sköpunarkraftur, sem fær vissulega oft jarðveg til að njóta sín, þó ekki alltaf, en eitt er víst að þessi æskulýðsmót, bæði Landsmót æskulýðsfélaga Þjóðkirkjunnar á haustin, febrúarmót Æskulýðssambands Reykjavíkurprófastsdæma og umrætt mót á Norður og Austurlandi eru einstaklega vel til þess fallin að virkja ungmenni til góðra og þarfra verka í þjónustunni við Guð og náungann.

Venjulegast er gríðarlega mikið undirbúningsferli búið að eiga sér stað fyrir svona mót, þar sem margir myndugir þjónar kirkju og kristni leggja hönd á plóg.  Kjarni hvers móts er Jesús Kristur, sem í boðskap sínum og líkingafrásögnum talar um mikilvægi þess að okkur sé fengið hlutverk og að iðjuleysi sé manneskjunni hvorki eðlislægt né til heilla og kallar okkur til liðs við Guð Föður Skapara heims, til þess að vinna að sístæðri sköpun Hans.

Það að finna það að maður sé þátttakandi í því, að í því ferli öllu sé á þig hlustað, að þú hafir þar einhverju merkilegu að miðla, að í þér búi hæfileikar, sem fá tækifæri til að birtast og njóta viðurkenningar, slíkt er jú að eiga sér líf og slíkt styður meira en þig grunar er þú þarft yfir erfiðleika að svífa.

Mynd frá mótinu
Mynd frá mótinu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Æskulýðsmót eru í þessu samhengi alveg lífsnauðsynlegt fyrirbrigði fyrir utan þau margfeldisáhrif, sem þau hafa á mótsstöðum, staðarbúar sýna mótunum áhuga enda sjá þeir ljós í skólum, íþróttahúsum, kirkjum, sjoppum og allsstaðar þar sem félagsþörfin fær útrás.

Í einni sjoppunni komst ég ekki hjá því að heyra samtal tveggja mæðra er voru að velta fyrir sér öllu þessu unga fólki í plássinu og hvað það væri nú að gera á svæðinu og þegar þær voru búnar að komast að því, glöddust þær verulega yfir heimsókninni og tilgangi hennar.  Já, þarna er kirkjan sannarlega að störfum sagði önnur þeirra og móðurhjartað sló í takt við orðin heilnæmu í sálminum góða:  „Kirkjan er oss kristnum móðir.“

Í lokaguðsþjónustu æskulýðsmótsins á Reyðarfirði fengu svo viðstaddir, bæði mótsgestir og heimamenn að njóta ávaxta þess starfs er unnið var á mótinu og auðvitað fengu þar orð og boðskapur nýja sálmsins í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva að hljóma „Ég á líf.“

Bolli Pétur Bollason.