Eftir mörg mögur ár …

0
81

Tólf ára tímabil ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var samfellt niðurlægingartímabil fyrir landsbyggðina. Fólksflutningar til suð-vestur hornsins í kjölfar fækkunar starfa og starfsmöguleika vítt og breytt um landið sogaði kraftinn hægt og bítandi úr landbyggðinni og veikti stöðu hennar frá því sem var. Þetta á ekki síst við um Húsavík og þau sveitarfélög sem nú mynda Norðurþing.

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason

Látlaus fólksflótti af svæðinu var ekki merki um að fólk vildi ekki búa á svæðinu, að mannlífið væri ekki gott eða það hefði ekki upp á að bjóða möguleika til sómasamlegs lífviðurværis af náttúrunnar hendi. Heldur betur ekki. Hnignun atvinnulífsins og fækkun íbúa var mannanna verk, afleiðing pólitískrar vangetu í bland við pólitísk markmið stjórnarflokka þeirra tíma. Fátt, ef nokkuð, var gert til varnar fækkandi atvinnutækifærum með tilheyrandi fólksfækkun í Norðurþingi á þeim tíma.

 

Það vantaði þó ekki að gefnar væru vonir og byggðar upp væntingar sem menn höfðu svo hvorki burði í sér eða getu til að láta rætast. Þessir tveir gömlu flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, skilja ekkert eftir sig í Norðurþingi nema brostnar vonir og pólitísk svik við samfélagið.

Það er fyrst núna, eftir mörg mögur ár, sem sér orðið til sólar og viðsnúningur verður í atvinnumálum á svæðinu. Undir forystu Vinstri grænna í ríkisstjórn hefur nú verið lagt af stað í stórfellda uppbyggingu atvinnulífs í Norðurþingi. Í kjölfar samninga við þýska fyrirtækið PCC, auk lagasetningar um uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu upp á milljarða króna, er hafin ný og löngu tímabær sókn í atvinnumálum á svæðinu. Mörg hundruð störf munu verða til á framkvæmdatímanum og vel á annað hundrað störf til frambúðar. Bæjarstjórn Norðurþings, með bæjarstjórann í broddi fylkingar, hefur haldið vel á málinu af hálfu sveitarfélagsins. Afrakstur af góðu samstarfi þeirra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur nú skilað íbúum Norðurþings og landsmönnum öllum, þeim árangri sem nú blasir við.

Undir forystu og á ábyrgð ráðherra og þingmanna Vinstri grænna er atvinnuuppbygging loksins að hefjast á Bakka við Húsavík. Eftir mörg mögur ár sinnu- og afskiptaleysis stjórnvalda fyrir atvinnulífinu á landsbyggðinni hefur tekist að snúa vörn í sókn.

Þó fyrr hefði verið!

Björn Valur Gíslason  Varaformaður Vinstri grænna