Dreki frá Hriflu er besti reyndi kynbótahrúturinn

0
392

Á opnum fagráðsfundi í sauðfjárrækt sem haldinn var í Bændahöllinni föstudaginn 1. mars sl. voru m.a. veitt verðlaun til ræktenda þeirra sæðingastöðvahrúta sem skarað hafa frammúr. Sæðingastöðvarnar gefa verðlaunin en faghópur sauðfjárræktar hjá RML velur hrútana út frá árangri þeirra.

Vagn og Margrét í Hriflu taka við verðlaunum fyrir Dreka. Mynd: Unnsteinn Snorri Snorrason

Besti reyndi kynbótahrúturinn var valinn Dreki 13-953 frá Hriflu og tóku þau Vagn Sigtryggsson og Margrét Snorradóttir, bændur í Hriflu, á móti verðlaunum fyrir hann.Mávur 15-990 frá Mávahlíð var valinn besti lambafaðirinn og veittu þau Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson verðlaunagripnum viðtökur. Frá þessu segir á vef Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins.

Dreki 13-953 frá Hriflu besti reyndi kynbótahrúturinn
Í þessum flokki koma einungis til greina hrútar sem eiga orðið tvo árganga af dætrum tilkomnar í gegnum sæðingar, sem komið hafa til uppgjörs. Hrúturinn þarf bæði að hafa sannað sig sem lambafaðir og ærfaðir. Nánar um reglurnar má finna inn á heimasíðu RML: https://www.rml.is/is/kynbotastarf/saudfjarraekt/hrutaverdlaun-saedingastodvanna

Umsögn Dreka:

„Mesti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2019 er Dreki 13-953 frá Hriflu í Þingeyjarsveit.

Að Dreka standa sterkar ættir sem byggja á hinni öflugu fjárrækt heima í Hriflu í bland við ýmsa af fremstu kynbótahrútum landsins. Bæði faðir hans og móðurfaðir hafa verið heiðraðir sem úrvalsgripir sæðingastöðvanna en Dreki er sonur Grábotna 06-833 frá Vogum 2 og dóttursonur Borða 08-838 frá Hesti. Þá þarf ekki að rekja ættir hans langt aftur til að finna þá Hyl 01-883 og Svaða 94-998 og má því segja að talsvert „Hestsblóð“ renni um æðar Dreka.

Dreki var valinn til notkunar á sæðingastöð sumarið 2015. Hann fékk strax góðar viðtökur hjá bændum vítt og breytt um landið og hefur ávallt verið í hópi mest notuðu stöðvahrútanna þá fjóra vetur sem hann hefur þjónað þar. Samkvæmt Fjárvís.is hafa verið skráðar um 4.400 sæddar ær við Dreka. Mögulega getur sá hópur átt eftir að stækka en Dreki er enn við ágæta heilsu.

Afkvæmi Dreka eru jafnan þroskamikil, bollöng með þykkan bakvöðva, góð lærahold og hóflega feit. Hann stendur nú í 110 stigum fyrir gerð samkvæmt BLUP kynbótamati og 115 stigum fyrir fitu. Sem ærfaðir hefur hann reynst ákaflega farsæll. Dæturnar eru ríflega í meðallagi frjósamar en styrkleiki þeirra fellst þó öðru fremur í frábærri mjólkurlagni. Fyrir þann eiginleika skartar hann 114 stigum sem er framúrskarandi gott fyrir svo mikið reyndan hrút en matið byggir á uppgjöri fyrir 855 dætur.

Ættbogi Dreka er orðinn gríðar stór. Framleiðsluárið 2018 átti hann um 340 syni í notkun á landinu og er því í hópi þeirra hrúta sem eiga hvað flesta syni í notkun um þessar mundir. Þá hafa tveir synir hans þjónað á stöðvunum, þeir Drangi 15-989 frá Hriflu og Fáfnir 16-995 frá Mýrum 2.

Dreki er sannarlega einn af öflugustu alhliða kynbótagripum stöðvanna á síðari árum og er vel að því kominn að vera útnefndur „mesti kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2019“.