Dettifossi rænt ?

0
89

Öll eigum við landið saman, náttúrgæðin, umhverfið, loftið og heiðríkjuna; jafnvel norðurljósin. Við erum vön því að fá að ferðast frjálst um afrétti og ógirt lönd, og við eigum þann rétt lögvarinn á meðan við völdum ekki tjóni eða sköpum almannahættu. Hugmyndir frænda minna í Mývatnssveit um gjaldtöku á opinberum vegaleiðum og áningarstöðum kynnu nú einmitt að raska þessu ef ekki verður við brugðist í almannaþágu.

Benedikt Sigurðarson
Benedikt Sigurðarson

Ekki er deilt um að mjög skortir á að uppbygging á aðstöðu til móttöku ferðamanna landið sé viðunandi –  og óralangt frá því að gríðarleg fjölgun erlendra gesta hafi verið undirbúin með fjárfestingu og skipulagðri stýringu.

 

Ekki er nægilegt að fjárfesta í kömrum og skúrum til að stunda prang á Kínaframleiddu glingri í bland við heimaprjón.  Við þurfum þvert á móti að taka á móti þessum gestum okkar með meiri rausn og myndarskap heldur en víða bryddir á.    Við þurfum ekki síst að gæta þess að stilla álagi á vinsæla staði í hóf – með skipulagi og krefjast fyrirframbókunar hópferða til að forða örtröð.

 

Við þurfum einnig að vinna að því að fjölga þeim stöðum sem bjóða gesti velkomna –  dreifa álagi og gestum okkar – ekki síst til að varðveita þá upplifun sem margir erlendir íbúar stórborganna sækjast eftir – í fámenni, auðn og kyrrð – mitt í stórbrotnu landslagi og einstæðri náttúru.

Á gráu svæði

Ferðaþjónustan barðist í bökkum árin fyrir Hrun ekki síst vegna falsks gengis.   Frá Hruninu stóra og með gengisfalli krónunnar hefur snúist verulega til betri vegar hjá ferðaþjónustunni. Eldgos og markaðssókn bætir við hóp gesta – og jafnvel dreifir þeim á lengra tímabil.  Eftir sem áður koma langflestir þessa 3 mánuði sem álagið er mest.  Nýting fjárfestingar verður því enn frekar slök og erfitt að tryggja heilsársafkomu fyrir þann hóp fólks sem vinnur í ferðamannaþjónustunni.    Skólafólk og verðtíðarstarfsmenn úr öðrum greinum munu því enn um sinn verða mikilvægur kraftur fyrir greinina.

Það er landlægt að hafa rassvasabókhald í afleggjurum greinarinnar og gráu svæðin í rekstrinum eru mörg – og meira að segja kolsvartar Evrur og Dollarar eru á ferðinni.    Þetta er vandamál og viðurkennd svívirða sem ekki má líða lengur.  Hér þarf að koma til samstilltra aðgerða og eftirlits sem skilar eðlilegri og heiðarlegri umgjörð um greinina.   Með allt á hreinu getur greinin lagt meira að mörkum og aflað sér virðingar og eflt metnað út á við og inn á við.

Alltof margir sem hafa verið í framlínu í greininni um langan tíma koma ýmist úr fákeppnissviðum ferðaþjónustunnar í gegn um Icelandair-Flugfélag Íslands eða úr þessum hálfgráu sviðum.    Grátkellingar og sérhagsmunaseggir hafa ráðið umræðunni og harðdrægir potarar hafa stundum haft einstaka ráðherra og Alþingismenn eins og í taumi.

Það skýrir að einhverju marki að ekki hefur tekist vel með uppbyggingu og skipulagningu ferðaþjónustunnar.  Almenningssamgöngur  hafa orðið meira og minna á hrakhólum og nýjustu tilraunir með Strætó kynnu að fjúka út í veðrið í bókstaflegri merkingu.  Innanlandsflugið er í fákeppni-kreppu og  verðlag er þar út af öllu lagi.   Erlendum gestum í innanlandsflugi fækkar – þrátt fyrir stórfellda fjölgun ferðamanna.

Um leið og við undirbúum okkur fyrir móttöku milljón erlendra gesta á einu ári 2015-2016 – er skorið svo hrikalega niður í landvörslu og umhverfisvernd að ástand sem var orðið slæmt mun ótvírætt versna.   (Á sama tíma telja stjórnvöldin að mikilvægt sé að fjölga vinnustundum lögreglu við að girða Alþingishúsið og draga lífeyrisþega yfir urð og grjót í Gálgahraunum.)

Almannaréttur

Þrátt fyrir að almannaréttur til umferðar um landið okkar sé sterkur og hefðin standi með þeim rétti –  þá er greinileg hætta á að sérdrægir (skráðir) landeigendur taki sér vald umfram heimildir.    Einkaeign nýríkustu Íslendinga á löndum og lóðum hefur fjölgað keðjum og hliðum á vegum og fornum leiðum –  hengilásar og skilti banna umferð um “einkavegi”.   Gjaldtaka „fjárfesta“ við Kerið í Grímsnesi hefur verið látin óátalin – jafnvel þótt tollheimtumennirnir hafi orðið uppvísir að yfirgengilegum dónaskap og pólitískum skætingi í garð fyrrverandi forsætisráðherra og opinberra gesta þjóðarinnar.

Nú er risinn upp afar sérstæður eigendahroki; í kring um ríkislendur við Geysi og á afrétti Mývetninga.    Á þessum fjölsóttu ferðamannastöðum hafa skráðir landeigendur boðað gjaldtöku af heimsóknargestum, innlendum og erlendum.   Segjast ætla að nýta þá peninga sem innheimtast til að byggja upp snyrtingar og útsýnispalla – eftir sínu eigin höfði og duttlungum.

Vegirnir og stígarnir hafa verið byggðir fyrir almannafé og eru alls ekki í eigu landeigenda sérstaklega.    Útsýnið hefur fram að þessu verið ókeypis og það er ekki glæsileg framtíðarsýn ef hver einasti landeigandi og vegspottatengdur lóðarhafi fer að setja upp tollahlið eða innheimtuskúr.  Með sama rétti mundu þá landeigendur við stofnbrautir og þjóðveg nr. 1 getað tekið upp á því að leika vegaræningja fortíðarinnar og riddarasagnanna –  gætu sett upp tollhlið og varðstöðvar.  Tröllið undir brúnni mundi verða að ljóslifandi veruleika í hverri sveit

Ferðafrelsið og ábyrg gjaldtaka

Ferðafrelsi á Íslandi er greinilega í hættu; – hugmyndin er í sjálfri sér algalin og óþolandi að skráðir landeigendur fénýti náttúrufyrirbæri og umhverfi Íslands með þessum hætti. Sannarlega er þörf á að byggja upp þjónustu og bæta umgengni og aðgengi að ferðamannastöðum – takmarka umferð og álag á vinsælustu stöðunum með því að allar skipulagðar hópaferðir sem seldar eru af rekstraraðilum – eiga auðvitað að bóka fyrirfram og takmarkast við hóflegt álag til koma í veg fyrir eyðileggingu á umhverfi og því að upplifun verði spillt með örtröð. Sjálfsagt mál að gjaldtaka alla skipulagð ferðaþjónustu og sölu á fólksflutningum, bílaleigu, gistingu og veitingarekstri – þannig að unnt verði að standa undir nauðsynlegri stýringu, uppbyggingu og rekstri á móttöku góðra gesta. Um leið verður auðvitað að skila söluskatti/VSK af allri ferðaþjónustu til sameiginlegra sjóða eins og af öðrum rekstri – hvert svo sem skattstigið á að vera.

En að frekir og ábyrgðarlausir landeigendur skulu fara af stað með slíka sjálftöku – á grundvelli þess aðgengis sem samgöngukerfi allra landsmanna og markaðssetning landsins hefur gefið færi á er alveg ólíðandi. Ástæða er að árétta að  auðvitað er þörf á að virkja nýja og fleiri staði til að þjóna áhuga og eftirspurn ferðamanna – – í frjálsu landi og með ferðafrelsi allra að leiðarljósi – án þess að íþyngja almenningi með gjaldtöku – og án þess að frekjudallarnir einir fénýti umhverfi og náttúru alls landsins eða heilla svæða – einkahagnaðarvæði þannig heiðríkjuna, vorbirtuna, kyrrðina, norðurljósin og fegurðina í lifandi og dauðri náttúru landsins.

Nei; – stöðvið þessa frændur mína – – og komið hér á kerfi sanngirni og ábyrgrar nýtingar umhverfsins og auðlindarinnar – í þágu alls almennings á Íslandi og í þágu ferðafrelsis og réttar allra til að eiga aðgang að umhverfisgæðum heimsins.     Við Íslendingar eigum nefnilega ekki ein það land, þá náttúru og þau umhverfisgæði sem okkur eru falin til varðveislu – þau á allur heimurinn og óbornar kynslóðir eiga rétt til þeirra gæða.

Benedikt Sigurðarson.