Dansað í Stórutjarnaskóla

0
140

Norðurlandsmót í þjóðdönsum. 

Um helgina 26.-28. okt. n.k. stendur Dansfélagið Vefarinn fyrir norðurlandsmóti þjóðdansara, í Stórutjarnaskóla.  Þar munu koma saman dansarar af svæðinu frá Siglufirði austur til Egilsstaða og munu eiga saman þessa tvo daga, kynnast, dansa, læra hvert af öðru og efla áhuga á þjóðdönsum og öðrum gömlum dönsum.  Þetta er í fimmta sinn sem félagar Vefarans koma saman á danshelgi í Stórutjarnaskóla.  En í ár fékk félagið styrk frá Menningarsjóði Eyþings til að standa fyrir þessu móti og hefur því verið vel tekið hjá öðrum dansfélögum.

Sunnudaginn 28. Október kl. 14:00  verður síðan uppákoma í Stórutjarnaskóla, þar sem sýndur verður afrakstur helgarinnar og glaðst yfir góðum árangri.  Eru dansáhugamenn hvattir til að koma og njóta góðrar skemmtunar.

Enginn aðgangseyrir er og allir hjartanlega velkomnir.

félagar úr Vefaranum í þjóðbúningum

 

 

 

 

 

 

 

Dansfélagið Vefarinn var formlega stofna 2004. Megintilgangur félagsins er að sýna íslenska þjóðdansa og aðra sýningardansa. Einnig vill félagið vekja áhuga almennings á innlendum og erlendum þjóðdönsum, stuðla að kennslu þeirra og útbreiðslu. Vefarar halda í hefðirnar og syngja gjarnan um leið og dansað er, við lifandi undileik harmonikkunnar. Vefarinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á að öll umgjörð sé sem vönduðust þegar hópurinn kemur fram og því eru allir sýnendur í þjóðbúningum og á sauðskinnsskóm. Lagt er upp með minnst sex pör í hverri sýningu svo dansarnir njóti sín sem best, þar sem margir þeirra eru hópdansar. Einkennisdans félagsins, Vefarinn, er einn af elstu dönsum okkar Íslendinga. Þar líkja dansarar eftir vefnaði í láréttum vefstól sem byrjað var að nota hér á landi á 18. öld. Fyrst eru þræðirnir þræddir í grindina, öll bil jöfnuð og skyttunni rennt í gegn. Slitna þræði þarf að laga jafnóðum og slegið er fast eða laust eftir því sem við á, til að gera voðina sem vandaðasta. Að lokum er voðin undin ofan af rifjunum fullgerð.

Formaður Vefarans er Heiðdís Björk Karlsdóttir. En hjónin Margrét Brynjólfsdóttir og Gunnar Smári Björgvinsson sem var áður kokkur í Stórutjarnaskóla stjórna dönsum og  sýningum, Gunni á það líka til að semja dansa og styðst þá við íslenska dansa. Nokkrir Þingeyingar eru í Vefaranum og munu verða í Stórutjarnaskóla um helgina, má þar nefna systurnar Þóreyju og Maríu Ketilsdætur, hjónin Gerði og Jón Albert, sem einnig er sérlegur bílstjóri þegar hópurinn leggur í langferðir, þau eru öll úr Bárðardal, Gunnar Gunnarsson frá Hálsi, Kristbjörg Ingólfsdóttir frá Ystafelli, af Svalbarðsstönd koma þau Ómar og Anna Petrea frá Dálksstöðum og Guðrún Sig, sem lengi bjó og kenndi í Hafralækjarskóla. Vefarinn hefur sett saman sérstakt jólaprógramm þar sem þau syngja jólalög og hafa aðlagað dansa að lögunum, þetta prógramm hefur m.s. verið sýnt á dvalarheimilum aldraðra á Eyjarfjarðarsvæðinu og á Húsavík.

það er alltaf líf og fjör.

En félagar Vefarans dansa ekki bara þjóðdansa þeir dansa líka gömlu dansana, allskyns hópdansa og hafa verið að læra les Lanciers, sem er quadrillu (fernings) dans ca.frá 19.öld hann var mjög vinsæll m.a. í Danmörk um 1870.  Þetta er dans í líkingu við það sem var dansað við hirðirnar suður í Evrópu.

Nú ættu allir dansunnendur að drífa sig á sunnudaginn og sjá hvað hópurinn er að gera.