Búið að vera ansi erfitt

0
204

“Þetta er búið að vera ansi erfitt” sagði Friðrika Sigurgeirsdóttir bóndi á Bjarnastöðum í Bárðardal, við tíðindamann 641.is í dag. 10 kindur hafa fundist dauðar og um 20 er enn saknað á Bjarnastöðum og var Friðrika vonlítil um að fleiri kindur finnist á lífi héðan af, enda liðnir 16 dagar frá því að óveðrið skall á.

Hjördís Ólafsdóttir frá Bjarnastöðum grefur upp dauðar ær.
Mynd: Friðrika Sigurgeirsdóttir

“Við vorum búin að taka öll lömb á gjöf og misstum því engin lömb. Hinsvegar var búið að sleppa fullorna fénu og grófust margar af þeim í fönn. Á fyrstu dögunum fundust þó nokkrar á lífi en þeim hefur fækkað mjög eftir því sem á hefur liðið”. Sl. mánudag fann Friðrika nokkrar dauðar kindur í fönn, eins og myndin hér að ofan sýnir.

“Þó að beint fjárhagstjón sé minna hjá okkur en mörgum öðrum er alltaf ömulegt að missa margar af sínum uppáhalds kindunum og það fæst ekki bætt” sagði Friðrika.

Fyrstu göngum og heimalandasmölunum var lokið í Bárðardal áður en óveðrið skall á og tjón því minna í Bárðardal en víða annarsstaðar í Þingeyjarsýslu, þar sem fé var heima við.

 

Hlaðið á Bjarnastöðum 15 september sl.
Mynd: Friðrika Sigurgeirsdóttir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fjöldi björgunarsveitarmanna og nágranna aðstoðuðu við leit að fé á Bjarnastöðum vikuna eftir óveðrið og á myndinni hér fyrir ofan sést vel hversu margir aðstoðuðu við það.

Friðrika færir þakkir öllum þeim sem aðstoðuð þau við leitina.