Búið að bora 48% af heildarlengd Vaðlaheiðarganga

0
151

Vinna við gerð Vaðlaheiðarganga hófst aftur í síðustu viku eftir jólafrí starfsmanna. Framvinda verksins þessa fyrstu vinnuviku ársins 2015 voru 46 metrar Fnjóskadalsmegin. Alls er búið að bora 3.466 metra sem er  48,1% af heildarlengd ganganna. Byrjað er að vinna í útskoti númer 2 Fnjóskadalsmegin. Lengd ganganna Fnjóskadalsmegin er komin í 771 metra og Eyjafjarðarmegin er lengdin 2695 metrar. Eyjafjarðarmegin er engin borun í gangi núna.

Vaðlaheiði sniðmynd
Sniðmynd af Vaðlaheiðargöngum. (Mynd af facebook-síðu ganganna)

Að sögn Valgeirs Bergmanns framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga er vinnu að ljúka við að leggja bráðabirgða vatnslögn sem flytur heitavatnið út úr göngunum Eyjafjarðarmegin, sem valdið hefur mikilum óþægindum og töfum á gangagreftrinum frá því snemma í vor. Búið er að loka fyrir um 80% af sprungunni sem heita vatnið hefur flætt úr og afgangurinn, um 60l/sek, verður leiddur út úr göngunum með áðurnefndu röri. Vatnsmagnið var svo mikið að ómögulegt var að setja það allt í eitt rör. Þegar þessu verki er lokið hverfur hitann og rakinn að mestu leiti, sem gert hefur áframhaldandi gangagröft Eyjafjarðarmegin ómögulega hingað til.

Mynd af Facebook-síðu Vaðalheiðarganga
Setlög Fnjóskadalsmegin. Mynd af Facebook-síðu Vaðalheiðarganga

Gangagröftur Fnjóskadalsmegin gegnur ágætlega og ekkert vatn er þar sem tefur fyrir, enn sem komið er. Hins vegar eru setlögin í berginu þar erfiðari en Eyjafjarðarmegin og því vinnst verkið hægar.

“Þetta er bara í samræmi við þær jarðfræðirannsóknir sem búið var að vinna og kemur því ekki á óvart”, sagði Valgeir í spjalli við 641.is í dag.

Valgeir sagðist gera ráð fyrir því að annar bor verði fenginn í verkið á næstunni svo að borun geti haldið áfram Eyjafjarðarmegin. Það var alltaf á áætlun að bora báðu megin frá, sagði Valgeir.

Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir því að umferð verði hleypt á Vaðlaheiðargöng í lok árs 2016. “Nú erum við að vonast til þess að göngin verði tilbúin til notkunar vorið 2017” sagði Valgeir Bergmann við 641.is í dag.