Bugsý Malón í Hofi, síðustu sýningar.

0
317

Leikfélag VMA er að sýna söngleikinn Bugsý Malón í Hofi. Síðustu sýningar eru um næstu helgi, föstudagskvöldið 15. og sunnudagskvöldið 17. febrúar kl. 20:00. Sýningin er litskrúðug, fyndin og fjörug en þó með drama ívafi. Fallegur söngur og góður leikur einkennir sýninguna. Þau eiga eflaust eftir að láta að sér kveða í framtiðinni þetta unga hæfileikaríka fólk. Það eru þrjár stúlkur úr Þingeyjarsveit sem koma að sýningunni, þær Katla María Kristjánsdóttir Lækjarvöllum, Dagbjört Jónsdóttir Lundi og Guðný Jónsóttir Staðarfelli svo er Anna Birta Þórðardóttir frá Húsavík. Miðasala er á mak.is og tix.is og miðaverð er 3.900kr.

 

 

Pétur Guðjónsson viðburðastjóri hjá VMA segir: Þetta er gríðarlega stór og fjölmenn sýning. Þetta er fjölmennasta sýning sem sett hefur verið upp til margar ára.  Leikfélag VMA hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár. Það má segja að þetta hafi byrjað 2014, þá setti leikfélagið upp 101 Reykjavík í Rýminu þar sem grunnurinn var lagður og þá fór þátttakendum að fjölga. Síðan þá hafa sýningar stækkað og í fyrra var uppsetningin Ávaxtakarfan en á þriðja þúsund manns sáu þá sýningu. Bugsý Malón er því afrakstur síðustu ára enda væri ekki hægt að setja upp slíka sýningu nema að hafa fjölda nemenda sem leggja mikið á sig til þess að koma sýningunni á fjalirnar. Auk nemenda koma að listrænir stjórnendur sem eru ráðnir í verkefnið, leikstjóri, aðstoðarleikstjóri, raddþjálfi og danshöfundur. Útkoman er glæsileg sýning með fjölmörgum þátttakendum sem hafa heldur betur lært mikið síðan ferlið hófst í október á síðasta ári.  Fréttaritari hafi einnig samband við Sigríði Huld Jónsdóttur Skólameistara VMA sem sagði eftirfarandi:

Ég sá Bugsy Malone í bíó fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Þá fékk maður stjörnur í augun yfir krökkunum sem léku í myndinni og lét sig dreyma um að verða fræg leik- og söngkona. Þessi draumur rifjaðist upp fyrir mér á frumsýningunni í Hofi, draumur minn um að verða leik- og söngkona, er fyrir löngu síðan bara orðin að góðri minningu, en eins og í bíóinu forðum, fékk ég stjörnur í augun yfir uppsetningu nemenda í leikfélagi VMA. Það að sjá margra vikna vinnu verða að heildstæðu verki á sviðinu er alveg magnað. Í sýningunni er líf og fjör allan tímann og allur þessi fjöldi góðra söng- og leikara er órtrúlegur. En það eru ekki bara þau sem leika og syngja, það er stór hópur annarra sem koma að sýningunni og þar kemur fjölbreytileikinn í skólanum sér vel þar sem nemendur af ólíkum brautum skólans koma að sviðsuppsettiningunni, búningum, förðun, tæknimálum og markaðsmálum. Ég er viss um það að það eru framtíðar sviðslistafólk í þessum hæfileikaríka hópi.

Allur hópurinn að lokinni frumsýningu.