Búfjársamþykkt rædd á íbúafundi

0
184

Í gærkvöld var haldinn íbúafundur í Ýdölum vegna draga að nýrri búfjársamþykkt fyrir Þingeyjarsveit, en hún hefur verið til meðferðar hjá sveitarstjórn í vetur. Fundurinn var haldinn til þess að fá fram skoðanir íbúa í Þingeyjarsveit vegna draganna. Frummælendur á fundinum voru Ólafur Dýrmundsson ráðanautur hjá Bændasamtökum Íslands, Daði Lange Friðriksson frá Landgræðslunni og Anna Lilja Ragnarsdóttir lögfræðingur hjá VÍS. Einnig voru viðstaddir fulltrúar frá Vegagerðinni og lögreglunni. Allir sveitarstjórnarfulltrúar Þingeyjarsveitar voru viðstaddir fundinn auk sveitarstjóra Þingeyjarsveitar, Dagbjörtu Jónsdóttur, sem stjórnaði fundinum. Tæplega 100 manns mættu til fundarins í Ýdölum.

Hluti fundargesta í Ýdölum
Hluti fundargesta í Ýdölum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í núverandi búfjársamþykkt fyrir Þingeyjarsveit er ekki í gildi lausagöngubann. Hinsvegar er í gildi bann við lausagöngu stórgripa (kýr/hestar) í Aðaldælahreppi hinum forna, sem sameinaðist Þineyjarsveit fyrir nokkrum árum. Í drögum að nýrri búfjársamþykkt fyrir Þingeyjarsveit er lagt til að bann við lausagöngu stórgripa í Aðaldælahreppi hinum forna verði aflagt, en lagt er til að lausagöngubann stórgripa verði komið á í þéttbýliskjörnunum á Laugum, við Hafralækjarskóla og við Stórutjarnaskóla. Sjá má drög að búfjársamþykktinni hér

Ólafur Dýrmundsson ráðanautur.
Ólafur Dýrmundsson ráðanautur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í máli Ólafs Dýrmundssonar ráðanautar kom fram að sveitarstjórnir geti sniðið sínar búfjársamþykktir að aðstæðum í viðkomandi sveitarfélagi og geti td. sett bann við lausagöngu stórgripa, eða alla lausagöngu, á afmörkuðu svæði, en leyft lausagöngu á öðrum. Í þéttbýlissveitarfélögum er lausaganga alls búfjár yfirleitt bönnuð og í nokkrum sveitarfélögum er lausaganga stórgripa bönnuð í þéttbýliskjörnum og við ákveðna vegarkafla. Í máli Ólafs kom fram að lausaganga alls búfjár er yfirleitt ekki bönnuð í dreifbýlissveitarfélögum á landinu. Slíkt bann sé óraunhæft, vegna þess hversu aðstæður séu misjafnar á milli sveitarfélaga.  Mjög víða sé ekki hægt að koma upp gripheldum girðingum, ma. til fjalla og eins er gríðarlega kostnaðarsamt að koma upp girðingum þar sem sveitarfélög sé mörg hver gríðarlega landmikil.

Anna Lilja Ragnarsdóttir lögfræðingur hjá VÍS útskýrði í stuttu máli muninn á tjónum sem kunna að hljótast af því þegar ekið er á búfénað í sveitarfélagi þar sem lausaganga er bönnuð og þar sem hún er ekki bönnuð. Í sveitarfélagi þar sem lausaganga er ekki bönnuð er ökumaður ökutækis yfirleitt ábyrgur fyrir tjóninu. Ef hinsvegar lausaganga er bönnuð er búfjáreigandinn ábyrgur, nema því aðeins ef búfjáreigandinn sé með sérstaka bændatryggingu sem VÍS býður bændum uppá. Þá er tjónið oftast deilt á báða aðila að frádreginni eigin áhættu búfjáreigandans, nema ef ásetningur sé sannaður á annan hvorn aðilann. Þetta er þó ekki algilt.

Daði Lange Friðriksson frá Landgræðslunni flutti einnig stutt framsöguerindi og minnti á athugasemdir sem hann sendi inn við vinnslu draganna sem sjá má hér

Að framsöguerindum loknum var opnað á fyrirspurnir úr sal. Fram kom að við vinnslu draganna sl. sumar var leitað umsagnar Búnaðarfélaga í Þingeyjarsveit um drögin. Í þeim umsögnum voru lagðar til orðalagsbreytngar, en að öðru leiti voru ekki lagðar til stórar breytingar á dröguunum. Ljóst er að veggirðingum eru sumstaðar illa sinnt og dæmi eru um “göt”  á þeim á sumum jörðum. Nefndu menn veginn yfir Víkurskarð sem dæmi.

Lagt var til við sveitarstjórn á fundinum að hafa samráð við Vegagerðina og Landgræðslunna við frekari vinnslu draganna.

Íbúar í Þingeyjarsveit geta sent inn til sveitarstjórnar tillögur/breytingar á fyrirliggjandi drögum að búfjársamþykkt.