Aðalfundur BSSÞ var haldinn í Heiðabæ 28. febrúar sl. Á fundinum voru veittar að vanda tvennar viðurkenningar til sauðfjárbænda, annars vegar hvatningarverðlaun BSSÞ og hins vegar Heiðurshornið sem Sf. Mývetninga gaf í minningu Eysteins Sigurðarsonar á Arnarvatni.

Hvatningarverðlaunin grundvallast á því að verðlauna þann bónda sem hæst stendur að jafnaði fyrir hlutfallslegan fjölda lamba til nytja, vænleika og gott kjötmat. Heiðurshornið er veitt þeim sem skarar mest fram úr fyrir gott kjötmat en einnig er horft til hlutfallslegs fjölda lamba til nytja.

Hvatningarverðlaunin þetta árið hlaut Héðinn Sverrisson á Geiteyjarströnd og var honum veittur farandgripur sá er BSSÞ lét gera af þessu tilefni og bókin Þingvallavatn til eignar. Næst honum að stigum komu þau Sveinbjörn og Hulda á Búvöllum, sem fengu viðurkenninguna í fyrra og í þriðja sæti var Ingjaldsstaðabúið.
Héðinn tók á móti viðurkenningunni og nefndi hann í ávarpi að Daði Lange frændi sinn ætti mikinn þátt í þeim ræktunarárangri sem hér liggur að baki.

Heiðurshornið árið 2013 hlutu þau Olga Marta Einarsdóttir og Hörður Sigurðsson á Einarsstöðum, en þau sköruðu fram úr þegar horft var til kjötmats auk þess sem hlutfallslegur fjöldi lamba til nytja var með ágætum. Auk heiðurshornsins fengu þau bókina Gersemar og þarfaþing til eignar. Þau sem næst komu að stigum voru Hrafnhildur Kristjánsdóttir á Grænavatni 2 og Sigurður og Helga í Skarðaborg. Veittu þau Olga Marta og Hörður gripum þessum viðtöku.