BSSÞ – Hvatningarverðlaunin og Heiðurshornið afhent í gær

0
164

Á aðalfundi Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga sem haldinn var í gær voru veittar tvær viðurkenningar að venju til sauðfjárbænda. Annars vegar Hvatningarverðlaun Búnaðarsambandsins sem veitt eru því búi sem þykir skara fram úr í frjósemi, vænleika og góðu kjötmati og hins vegar Heiðurshornið sem Sf. Mývetninga gaf í minningu Eysteins Sigurðarsonar á Arnarvatni, en úthlutun þeirra byggir að miklu leiti á árangri í ræktun kjötgæða.

Ásvaldur, Laufey og Eyþór. Mynd: María Svanþrúður Jónsdóttir
Ásvaldur, Laufey og Eyþór. Mynd: María S Jónsdóttir

Heiðurshornið kom nú í hlut Eyþórs Péturssonar í Baldursheimi 3. Í öðru sæti var Baldursheimur 1 og í þriðja sæti var Grænavatn II. Þessi bú hafa um árabil lagt mikla áherslu á ræktun holdmikilla og vel gerðra lamba. Er þetta í fjórða sinn sem Eyþór hlýtur þessa viðurkenningu frá því að henni var komið á laggirnar.
Hvatningarverðlaunin fóru í ár til Ásvaldar og Laufeyjar á Stóru-Tjörnum, en í öðru sæti voru Ingjaldsstaðir og í þriðja sæti var Vatnsleysa. Þessi bú hafa um árabil verið, eins og svo mörg fleiri, mjög virk í ræktunarstarfinu og afurðir framúrskarandi. Frá Stóru-Tjörnum hafa margir hrútar verið seldir í gegnum tíðina sem hafa haft mótandi áhrif á ræktunarstarf í héraði.

Fundurinn var haldinn að þessu sinni í Ýdölum og auk venjulegra aðalfundarstarfa þá voru erindi frá tveimur gestum, Baldri Daníelssyni á Laugum sem kynnti verkefnið Matarkistuna og Guðmundi Hallgrímssyni sem kynnti átaksverkefni á vegum Bændasamtakanna um innra eftirlit og slysavarnir hjá bændum.

Guðrún Tryggvadóttir var endurkjörin til áframhaldandi stjórnarsetu á fundinum, en með henni í stjórn BSSÞ eru Gunnar Brynjarsson og Hlöðver Pétur Hlöðversson.

Fundurinn var sérlega málefnalegur og var góður rómur gerður að störfum stjórnar.  MSJ.