Bréf til íbúa í Þingeyjarsveit

0
119

Ágæti íbúi í Þingeyjarsveit.

Nú hefur meirihluti sveitarstjórnar lagt fram tillögu þess efnis að allt skólahald Þingeyjarskóla utan leikskólans Krílabæjar verði flutt í húsnæði Hafralækjarskóla frá og með næsta skólaári.

Skólamál sveitarfélagsin hafa verið deiluefni síðan Þingeyjarsveit varð til. Það er mikið búið að karpa, rökræða, skrifa skýrslur, halda rýni,- íbúa,- og starfsmannafundi.  Margar hugmyndir og skoðanir hafa komið fram.   Ekki hefur verið eining um það hve margir grunnskólarnir ættu að vera í sveitafélaginu né hvar þeir ættu að vera staðsettir.

Þingeyjarsveit stærra

Í kosningabaráttu A-lista boðuðum við  ákveðið ferli sem við höfum fylgt. Þar sagði að við myndum láta gera úttekt á Þingeyjarskóla. Eina skýrslu um hina faglegu hlið, eina um fjárhagslegu hliðina og eina um rýmis,- og viðhaldsþörf starfstöðvanna.

 

Næsta skref væri að halda fund þar sem skýrsluhöfundar myndu kynna skýrslurnar.  Að lokum yrði kannaður hugur íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla um hvort þeir vildu sameina  Þingeyjarskóla á eina starfsstöð og það yrði gert með kosningu sem varð reyndar að skoðunarkönnun en gerði sama gagn.    Í öllu ferlinu kom skýrt fram að fólki yrði ekki gefinn kostur á að velja um staðsetningu hins sameinaða skóla heldur myndi sveitarstjórn taka þá ákvörðun.

Þetta ferli var skýrt sett fram fyrir kosningar og það væru svik við tæplega 70% íbúa Þingeyjarsveitar sem okkur kusu að gera annað en við boðuðum.

Nú erum við búin að fylgja þessu ferli og niðurstöður könnunarinnar eru skýrar, 79 prósent á skólasvæði Þingeyjarskóla vildu sameina Þingeyjarskóla á eina starfsstöð.

Ákvörðun okkar var tekin þegar við höfðum sömu upplýsingar og aðrir íbúar uppúr skýrslunum sem og skoðanakönnuninni.  Í þessu ferli höfum við í meirihlutanum velt fyrir okkur mörgum mögulegum lausnum og með faglegri rökræðu höfum við rætt okkur til sameiginlegrar niðurstöðu. Tekin var einhuga ákvörðun um að leggja fram tillögu um að færa allt skólahald Þingeyjarskóla utan leikskólans Krílabæjar í húsnæði Hafralækjarskóla.

Ástæður fyrir þessari tillögu er margar:

  • Húsnæði Hafralækjarskóla uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis. Húsnæðið er tekinn út eins og annað opinbert húsnæði með reglulegum hætti af eftirlitsaðilum s.s. Eldvarnareftirliti, Vinnueftirliti og Heilbrigðiseftirliti.
  • Skólinn er miðsvæðis með tilliti til skólaaksturs
  • Skólinn er vel búinn og í ágætu ástandi
  • Skólinn hefur mikið og gott pláss og aðstöðu til að kenna flestar greinar
  • Skólinn hefur aðgang að Ýdölum til notkunar fyrir íþróttir, leiksýningar, hátíðarhöld og samkomuhalds
  • Skólahúsnæðið er í eigu sveitarfélagsins og hægt er að flytja alla starfsemi þingeyjarskóla í húsnæðið án mikils kostnaðar
  • Húsnæðið krefst viðhalds sem hægt er að halda innan viðráðanlegra fjárútláta á næstu árum
  • Við getum ekki réttlætt það að byggja nýjan skóla á Laugum þegar sveitarfélagið á húsnæði sem uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis

Okkur er ljóst að þetta er sársaukafull og erfið ákvörðun en aldrei hægt að gera öllum til hæfis.  Það verða alltaf einhverjir sem hafa aðrar skoðanir og sýn á málin og vilja að önnur leið sé farin.

Það er okkar sannfæring að í tillögu okkar felist besta lausnin í erfiðri stöðu. Við trúum því að við séum að láta hagsmuni heildarinnar ráða. Að með þessu móti  verði til  betri skóli fyrir minni fjármuni, þar sem faglegt starf verður betra og félagslegum þörfum barnana okkar verður betur borgið.

Rétt er að minna á að ekkert í skólamálum er endanlegt, en við trúum því að miðað við núverandi aðstæður í sveitarfélaginu þá sé þetta rétt ákvörðun á þessum tímapunkti.

 

Bestu kveðjur

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Árni Pétur Hilmarsson
Ásvaldur Þormóðsson
Heiða Guðmundsdóttir
Eiður Jónsson
Nanna Þórhallsdóttir

Tekið af vef Þingeyjarsveitar í dag