Bréf til Gísla

0
113

Gamli vinur, ég vona að þessar línur hitti þig frískan og ánægðan. Þakka þér fyrir bréfið sem ég fékk með góðum skilum. Mér fannst um stund, þá ég las það ég vera að lesa Íslandsögu Jónasar frá Hriflu. ,,Yfirvöldin illa Dönsk á annari hvorri þúfu“ orti nafni minn Hallgrímsson í gamladaga. Og satt er það við erum búinn að koma okkur upp apparati sem telur sig hafa meira vit á náttúrinni en náttúran sjálf.

Jónas á Lundarbrekku
Jónas á Lundarbrekku

Eins og þú segir þá er lögum samkvæmt óheimilt með öllu að urða hræ og annan úrgang heimafyrir, það er samt ljóst að náttúran er með skilvirkt kerfi til að eyða hræum og öðrum lífrænum efnum og koma próteini og kolvetnasamöndum til annara lifandi lífvera. Eins og þú örugglega veist þá ganga kolnventasambönd sífellt í endurnýjun lífdagana í næstu lífverum. Nú lenti ég á hliðarveg líkt og oft henti Jón í Fremstafelli.

Sú fyrra að flytja þurfi hræ til förgunar í aðra landshluta nær ekki nokkurri átt. Þarna á við það sem frændi minn Kári í Garði kallar ,,nauðsynlega borgaralega óhlýðni“. Við Íslenskir sveitamenn eigum að láta brjóta á þessu ákvæði, grafa opinberlega hræ sem víðast og láta kæra. Viðurkenna svo allir sem einn að hafa grafið . Og brjóta þessi vitleysu á bak aftur.
Sama á við um brennslu, mig bíður í grun að í dreifðum byggðum Noregs séu litlar brennslur, kannski Díoxíð fríar ,hver veit. Þú ert svo stór í hugsun að þegar ég tala um að hver fjölskylda láti moltna hjá sér matarafganga í holum nálægt heimilum sínum, talar þú um moltugerð fyrir allt Norðurland. Mín smáa hugsun er að hvert heimili minki um minnst helming það sorp sem við nú flytjum til urðunar. Það er vel hægt og nauðsynlegt. En hvorki sveitarstjórnir Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Tjörnesshrepps né Norðurþings hafa haft nokkra tilburði síðustu ár til að hvetja fólk til að minka sorp og ekki þú heldur. Einn maður hefur hér um slóðir skrifað um moltugerð við heimili, það er Kristján Pálsson á Húsavík.  Engin hvorki sveitarstjórnarmaður eða aðrir, hafa séð ástæðu til að svara honum.

Fyrir einum 8-10 árum seldi Þingeyjarsveit plastskassa til moltugerðar, þeir voru fyrirhafnarsamir. Fólk setti einu sinni í þá en fáir aftur. Enda á þetta að vera einfalt, stunguspaði og hleri kannski svona fermeter dugir.
Eins er með flokkun sorps, ég held að lang flestir flokki gos , bjórdósir og flöskur of fari með á endurvinnslu, enda fá menn nokkrar krónur fyrir. Þar hygg ég að hundurinn sé grafinn, þú gerir óþarflega mikið úr því að ég vilji ekki greiða fyrir annara sorp. Það sem ég á við og veit ,það er að sú leið að láta fólk borga fyrir raunverulega notkun er vænlegri til árangurs í því að minnka sorpi heldur en nefskattur. Ég er nokkuð viss um að æði hátt hlutfall dósa og flaskna færi í heimilissorp ef ekki væri skilagjaldið. Leiðin að hjarta mannsinns er í gegn um budduna.  Mér finnst eins að við sveitamennirnir verðum að safna pappír, kössum og fernum og koma því sjálf á endurvinnslustað. Ekki dettur mér annað í hug en lífið verði fyrirhafnarsamara í framtíðinni ,því miður.

Gísli minn, þú segir réttilega að fyrir 132 árum hafi Þingeyingar komist að þeirri skoðun með því að vinna saman og standa saman hafi allir grætt. Ekki græddu nú allar fjölskyldur á KÞ. Sósialiskar skoðanir samvinnumanna voru og eru fallegar, en reynslan er sú að við mennirnir erum of ófullkomnir fyrir þær. Mér finnst sem við Þingeyingar hafi étið yfir okkur og orðið bumbult af samvinnuhugsjóninni.

Nú læt ég þessu pári lokið. Ég vona að á vori komanda gröfum við báðir holur í námd við húsin okkar og látum þar rotna kartöfluflus, fiskroð og bein og annað það lífrænt sem við höfum ekki lyst á.

Vertu blessaður og sæll. Þinn vinur Jónas á Lundarbrekku.

P.S. Bið að heilsa Tótu.