Boðað til samstöðufundar við Kjarna á morgun

0
113

Boðað hefur verið til samstöðufundar með áframhaldandi grunnskólahaldi í Reykjadal fyrir utan Kjarna á Laugum á morgun, fimmtudag kl 16:15, en fundur í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefst á morgun í Kjarna kl 13:00. Frá þessu segir í tilkynningu sem 641.is hefur borist.

 

Kjarni á Laugum
Kjarni á Laugum

 

Aðalsteinn Már Þorsteinsson sem fer fyrir samstöðuhópnum sagði í spjalli við 641.is nú í kvöld að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar væri að fara að taka ákvörðun í skólamálum.

 

 

 

“Mér finnst áriðandi að við þá ákvörðunartöku geri allir sér ljóst hversu mikilvægt það er fyrir áframhaldandi uppbyggingu Þingeyjarsveitar allrar, að áfram sé starfræktur grunnskóli á Laugum. Ég vil gera mitt til þess að reyna að stuðla að því að Laugar verði áfram það menntasetur sem það hefur verið í hartnær eina öld. Með því að boða til þessa samstöðufundar fyrir utan Kjarna á morgun, fimmtudaginn 27. nóvember kl. 16.15, vonast ég til þess að gefa þeim öllum öðrum, sem líkt og ég sjá hversu miklu máli þetta skiptir, tækifæri til þess að koma því á framfæri.”, sagði Aðalsteinn ennfremur í spjalli við 641.is nú í kvöld.