Blóraböggullinn

0
773

Á þessum páskum langar mig til að tala svolítið um lygina.  Það er kannski ekki páskalegt viðfangsefni en sem andstæða kallast hún á við sannleikann sem verður um leið til umfjöllunar og sér því frekar um að sveipa þessa hugleiðingu páskaljóma.

Það hefur löngum verið þannig að manneskjur hafa tekist á um það hvort atburðir kristinna páska séu yfir höfuð lygi eða sannleikur. Sumir hafa jafnvel viðurkennt tilvist Jesú og verk hans en samt um leið hafnað sigri hans yfir dauðanum í upprisunni, sem er í raun mark og mið hjálpræðissögu kristinna manna.

Lygi verður iðulega til þegar við erum að verja okkur gegn sannleikanum, þegar við eigum t.d. erfitt með að líta í eigin barm. Í glæpamálum spinna menn sögur til að komast hjá afleiðingum sannleikans, kúnst glæpamanna er m.a. sú að samræma lygina og oftar en ekki kemst upp um þá vegna þess að lygin gengur hreinlega ekki upp og ekkert samræmi er til staðar, sannleikurinn gerir sínar kröfur, miklu meiri en við oft höldum.

Bolli Pétur Bollason

Þetta leiðir okkur á vissan hátt að upprisufrásögnum guðspjallanna fjögurra í Biblíunni, kennd við þá Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes, öll eru þau rituð á 1. öld eftir Krist, en ekkert þeirra segir nákvæmlega eins frá upprisunni nema þá að fyrstu þrjú guðspjöll Matteusar, Markúsar og Lúkasar, eru líkust enda kölluð samstofna guðspjöllin. Talið er að höfundar Matteusarguðspjalls og Lúkasarguðspjalls hafi lesið Markúsarguðspjall, sem er elst guðspjallanna. Jóhannesarguðspjall er yngst og sker sig úr.

Það þýðir þó ekki að um sé að ræða lygi í frásögnum guðspjallanna í takt við   örvæntingarfulla glæpamenn sem reyna að samræma sögur sínar iðulega með rýrum árangri, því guðspjallamennirnir eru allir með kjarna þess sem atburðir páskanna snúast um, að Jesús lifði áfram þrátt fyrir dauða, birtist lærisveinum sínum og dvaldi hjá þeim og það er ekkert lítið.

Það myndi ég sömuleiðis vilja segja að upprisuatburðurinn er það stór að ekki nokkur mannleg vera gæti nokkurn tímann skáldað hann og höfum við samt fjörugt ímyndunarafl.

Mér finnst í raun ekkert sannara en upprisan, mér dettur ekki í hug að véfengja hana, eða grafa undan henni, mér finnst bæði áhrif hennar staðfesta sannindi hennar, öll kirkjusamfélögin og kirkjubyggingarnar í veröldinni, öll verkin sem hafa verið unnin í Jesú nafni, útbreiðsla kristinnar trúar, hvernig líf og starf Jesú hefur síendurtekið afhjúpað lygi í gegnum aldirnar og öll sú hugsjón og sá styrkur sem birtist í fjölda fólks sem hefur helgað líf sitt og störf krossfestum og upprisnum Jesú Kristi.

Eitt af því sem fær mig til að treysta því að Jesús hafi verið sjálfur sannleikurinn, en síst lygin, er hvernig hann mætti fólki og fékk það til að horfast í augu við sjálft sig. Hann leit t.a.m. svo á að honum bæri að vera í húsi Sakkeusar tollheimtumanns, sem var fyrirlitinn af samfélaginu vegna þess að hann stal og laug, en sá sig síðan um þegar hann fann fyrir návist og fyrirgefningu Jesú og þeirri staðreynd að Jesús vildi vita meira um líf hans fremur en að skilgreina það sjálfur fyrirfram og draga af þeirri skilgreiningu ályktanir sem gátu svo ekki staðist.

Þannig leitaði Jesús hins týnda og frelsaði með því að vilja vita meira um líf þess sem týndur var og komast að því að líf hans væri ekki svo vont eins og almenningur var búinn að ákveða.

Þetta gerði Jesús líka þegar hann mætti kanversku konunni sem lærisveinarnir úthrópuðu en hann ákvað að eiga við hana djúpstætt spjall og komst þá að því að konan sú var auðmjúk og mælti í framhaldi af því til hennar: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.” Jesús var þannig í sannleikanum og í því ljósi vildi hann tala beint við fólk, spyrja það beint um hagi þess og líðan, en datt síður í hug að búa eitthvað til um það og dæma það út frá eigin skilgreiningum og ályktunum.

Það er virkilegt mein í samskiptum fólks og samskiptum þjóða þegar farið er út í það að flýja sannleikann eða vernda sig gegn honum í eigin lífi með því að skilgreina eitt og annað í fari annarra án þess að vita nokkuð og bera það síðan áfram út í „kosmósið.” Það er þetta sem heitir að búa til blóraböggla sem við m.a. sjáum svo skýrt hjá ráðamönnum er starfa sem einræðisherrar og þar kemur  einhverra hluta vegna upp í hugann nýr forseti Bandaríkjanna Donald Trump og stríð hans gegn fjölmiðlum vestanhafs, þó svo að með því sé ég alls ekki að upphefja fjölmiðla á hans kostnað, fjarri því.  Fjölmiðlar eru síður en svo alltaf drifnir áfram af sannleikanum, þar spila oft og tíðum hagsmunir og vinabandalög inn í.

Þau sem búa til blóraböggla eru að fela lygina í eigin lífi, og eru með því að  draga athygli frá henni og beina henni annað, að öðrum, það er gjarnan gert til þess að vernda ímynd fullkomnunar og yfirborðs, sem ósjaldan einkennist af því að gera sig að fægðum siðferðispostula sem lítur út fyrir að hafa einungis hreint mjöl í pokahorninu.

Jesús varð einn af þessum blórabögglum sem rómversk yfirvöld létu líta út sem forhertan glæpamann enda aðeins slíkir menn sem voru negldir upp á kross. Þeir gerðu Jesú að óróasegg, föðurlandssvikara og guðlastara og böðuðu sig á meðan í eigin ímynduðu réttlætisljósi og siðferðisljóma, sem þó var aðeins blekkingin ein.

Það er þessi staðreynd í píslarsögunni og í mannlegum breyskleika sem fær mig m.a. til að trúa því staðfastlega að ekkert sé sannara en upprisan, því í þessu samhengi er hún sigur sannleikans yfir lyginni, að með upprisunni geti blóraböggulsplott rómverskra yfirvalda né nokkurra annarra aldrei stært sig af kænsku sinni, hvað þá heiðarleika, því fórn Jesú á krossi og upprisubirtan dregur lygina ávallt fram í dagsljósið og sýnir óhreinindin eins og vorsólin sem skín á rykið á stofuhillunum.

Þetta er m.a. það sem fær mig til að skilja betur orð Jesú í kveðjuræðu hans þegar hann talar til lærisveina sinna og segir:

„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.”

„Sannleikanum verður hver sárreiðastur.” „Oft má satt kyrrt liggja.” Þetta eru máltæki sem hvetja heldur til þess að við veljum lygina fram yfir sannleikann. Hver hefur reyndar ekki gripið til lyginnar til þess að halda öllu góðu, til þess að þurfa ekki að ræða hlutina eða til þess að koma sér hjá einhverju sem þarf að gera eða sinna?  Stundum af hreinni meðvirkni.

Það má vera að í einhverjum tilvikum sé mikilvægt að leyna sannleikanum, ég veit það ekki, en eitt er víst að upprisuatburður páskanna heldur okkur við efnið og minnir okkur á að þótt leiðin að sannleikanum geti reynst þjáningarfull, sár, vond, erfið, þá verður uppskeran iðulega sigur, við stöndum uppi sem sigurvegarar og blóraböggullinn þarf ekki að bera skömmina heldur miklu fremur höfuðið hátt.

Bolli Pétur Bollason