Þrátt fyrir frekar leiðinlega verðurspá var vel mætt á Bjarmahátíð. Eftir hádegi gengu á Hálshnjúk tíu manns, útsýnið frábært, svolítið hvasst á toppnum en veðrið orðið mjög gott þegar niður kom.

Í göngu um trjásafn mættu fáir og ákváðu að fá sér frekar kaffisopa hjá skógarverði. Þá mættu fjórtán manns bæði börn og fullorðnir hjá Mörk kl. sjö og hjóluðu út á Bjarmavöll u.m.þ.b. átta km. Ratleikur hófst upp úr átta á Bjarmavellinum og var þátttaka mjög góð. Þátttakendur svöruðu misþungum spurningum, sippuðu, hlupu og hoppuðu parís svo eitthvað sé nefnd. Þá var húllað og einnig farið í stórfiskaleiki. Eftir mikil hlaup og leiki var farið í lautarferð upp í skóg að pallinum okkar, kvöldkaffi drukkið og mikið spjallað. Jón Már starfsmaður á Lundsvelli spilaði nokkur gömul og góð lög á gítar og einhverjir sungu með. Börnin hoppuðu parís og léku sér í skóginum.

Í heild mættu um 55 manns um kvöldið og áttu notalega stund saman.
Pallurinn var skreyttur með seríum og kertaluktir voru hengdar á trjágreinar, tunglið lét heldur ekki sitt eftir liggja og skartaði sínu fegursta. Velheppnaður dagur í alla staði og dásamlegt kvöld. Texti og myndir Birna Davíðsdóttir.

